Fréttir

Körfubolti | 25. febrúar 2003

KEF-KONUR unnu Njarðvík með 10 stigum, 81-71

Keflavíkurkonur fengu granna sína í heimsókn á sunnudaginn. Leikurinn var skemmtilegur eins og raunin hefur verið í leikjum liðanna í vetur. Njarðvík var liðið sem stöðvaði langa sigurgöngu Keflavíkur fyrir um mánuði síðan og hefur liðið leikið prýðilega í vetur, ekki síst með tilkomu nýja leikmannsins, Krystel Scott, en hún er mjög fjölhæfur leikmaður.

En Keflavíkurliðið var ekki á þeim buxunum að tapa aftur fyrir Njarðvík. Stúlkurnar náðu þó ekki afgerandi forystu heldur rokkaði hún á bilinu frá 1 til 12 stigum mest allan leikinn og var 11 stig í hálfleik, 49-38. Í upphafi síðasta leikhluta var munurinn fimm stig og minnkaði niður í eitt, 68-67. En á lokakaflanum voru Keflavíkurstúlkur öruggar og lönduðu 10 stiga sigri.

Erla Þorsteinsdóttir átti mjög góðan leik (22 stig) og heilt yfir var sóknarleikurinn ágætur, enda dreifðist stigaskorið vel á liðsmenn, sex stúlkur skoruðu 10 stig eða meira. Varnarleikurinn var þó gloppóttari en oft áður, enda óvenjulegt að Keflavík fái á sig yfir 70 stig. Sigurinn var góður og liðið virðist vera að ná sér á strik eftir slakan kafla á dögunum.