Keflavík – Valur á morgun: Menn þurfa að herða varnarleikinn
Á morgun fara Keflvíkingar til Reykjavíkur, nánar tiltekið að Hlíðarenda og leika þar gegn nýliðum Valsara í sjöundu umferð Intersport-deildarinnar. Fyrirfram má áætla að okkar menn séu sterkari, og í raun má færa rök fyrir því að Keflavík hafi sterkari leikmann í öllum stöðum og kannski er ekki nema í mesta lagi einn Valsari sem kæmist í tíu manna leikmannahóp Keflavíkur.
Þrátt fyrir þetta er ekkert öruggt í þessum heimi. Valur vann t.d. Njarðvík sem er meira en við gátum! Við höfum á stundum skotið andstæðinga í kaf, en stundum ekki nennt að spila vörn, eins og gegn Grindavík á föstudaginn. Og staðreyndin er sú að ef menn nenna ekki að spila vörn, þá geta andstæðingarnir nánast alltaf skorað. Þess vegna er lykillinn að sigri gegn Val, eins og reyndar gegn öllum öðrum félögum, að mæta klárir í varnarleikinn. Vonandi reynist tapið gegn Grindavík nægjanleg áminning.
Við ættum að landa öruggum sigri gegn Val, ef menn nenna að spila vörn, en gleymum ekki, að nöfn á pappírum vinna enga leiki!