Keflavík 0 - Haukar 2
Það er óhætt að segja að í kvöld hafi Keflavíkurstúlkur sett bakið upp við vegg í einvíginu gegn Haukum í 4-liða úrslitum Iceland Express deild kvenna. Leikur tvö var háður á Ásvöllum fyrr í kvöld og svo fór að Haukastúlkur lönduðu sigri og eru því 2-0 yfir í einvíginu. Þrjá leiki þarf til að komast í úrslitarimmuna og þurfa Keflavíkurstúlkur því að sigra í þremur leikjum í röð til að ná því. Lokatölur leiksins í kvöld voru 73-68 Haukum í vil.
Bæði lið áttu í mestu basli við að koma knettinum ofan í körfuna í upphafi leiks og voru tæpar 3 mínútur liðnar þegar fyrsta stigið datt í hús Haukamegin. Þær voru komnar í 7-0 skömmu eftir það og Keflavíkurstúlkur settu loksins stig þegar rúmar 4 mínútur voru liðnar. Eftir það byrjuðu þær að naga á forskotið, en Haukastúlkur ávallt með frumkvæðið og forystuna í leiknum. Staðan í hálfleik var 39-33.
Keflavíkurstúlkur komu mun grimmari til leiks í seinni hálfleik og tókst þeim að komast yfir í leiknum eftir rúmar 4 mínútur. Þær leiddu leikinn 53-56 þegar 4. leikhluti hófst. Haukastúlkur voru hvergi nærri hættar og náðu að koma sér inn í leikinn á nýju og voru lokamínúturnar æsispennandi. Vendipunktar leiksins voru tveir. Þegar um 40 sekúndur voru eftir af leiknum hélt Keflavík í sókn í stöðunni 70-68 og hafði færi á að jafna leikinn. Pálína reyndi þá erfiða sendingu inn í teig sem rataði í hendurnar á Haukastúlkum og þær héldu í sókn. Eftir að hafa reynt skot, þá hirtu þær sóknarfrákastið og að lokum var brotið á Gunnhildi Gunnarsdóttur. Hún setti bæði ofan í og Keflavík tók leikhlé. Keflavík átti svo innkast og gat minnkað muninn með skjótri körfu og um 9 sekúndur eftir. Pálína tekur innkastið og boltinn ratar svo gott sem beint í hendurnar á Haukastúlkum. Aftur var brotið á Gunnhildi og henni nægði að setja annað ofan í sem hún gerði. Lokatölur 73-68.
Það vakti sennilega athygli einhverra að Íris Sverrisdóttir og Guðrún Ósk Ámundadóttir meiddust báðar á hné eftir hraðaupphlaup og brotið var á þeim. Af myndbandsupptökum að dæma, þá eiga þær báðar sameiginlegt með að koma dripplandi upp völlinn, stökkva jafnfætis og lenda illa á hné, en í nánast sömu andrá var brotið á þeim. Einhverjir æstir aðdáendur Haukamegin vildu ásetning í seinna skiptið, en í báðum tilfellum var villan sjálf léttvæg og dómarar staðsettir um einum meter frá báðum brotum.
Bakið upp við vegg er staðreynd og er það að duga eða drepast á miðvikudaginn þegar að liðinu mætast í 3ja sinn. Leikurinn fer fram í Toyota Höllinni kl. 19:15 og allir hvattir til að láta sjá sig og styðja stelpurnar áfram í keppninni.
Stigaskor kvöldsins:
Keflavík: Jaleesa Butler 24/13 fráköst/8 varin skot, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 14/4 varin skot, Eboni Monique Mangum 13/8 stoðsendingar, Helga Hallgrímsdóttir 6/9 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 6, Pálína Gunnlaugsdóttir 4/4 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 1, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Soffía Rún Skúladóttir 0, Hrund Jóhannsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.
Haukar: Jence Ann Rhoads 29/3 varin skot, Tierny Jenkins 15/22 fráköst/7 stoðsendingar/5 varin skot, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 11, María Lind Sigurðardóttir 8/4 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8/5 stolnir, Guðrún Ósk Ámundardóttir 2/4 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 0, Sara Pálmadóttir 0, Íris Sverrisdóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Ína Salóme Sturludóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0.