Fréttir

Karfa: Konur | 30. mars 2009

Keflavík b eru sigurvegarar í 1. deild kvenna

Keflavík b tryggði sér deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna um helgina með sigri á UMFN í framlengdum leik sem var hin besta skemmtun. Frábær árangur hjá þessum ungu stelpum sem tóku þátt í deildinni án allra væntinga í þessa veru, enda var markmiðið fyrst og fremst að ná í reynslu og samkeppni fyrir stelpurnar. Þær hafa líka sýnt mikinn sigurvilja í vetur og framtíðin verður að teljast björt. Þar fyrir utan hafa þær fjármagnað þessa þátttöku að miklu leiti sjálfar þó unglingaráð hafi vissulega hjálpað þar til.

 

Njarðvíkingar byrjuðu 1. leikhluta heldur betur og höfðu frumkvæðið framan af en okkar stelpur náðu góðri rispu undir lokin og enduðu hann með þriggja stiga forystu.

Um miðjan annan leikhluta var staðan orðin 30-23 fyrir Keflavík þegar Heiða Valdimarsdóttir hrökk í gírinn fyrir UMFN og setti niður fjóra þrista í röð og sneri leiknun þeim í vil.  Segja má að leikurinn hafi verið í járnum upp úr því og þegar fáar mínútur voru eftir hafði Njarðvík fjögurra stiga forskot og spennustigið orðið hátt. Árnína og María jöfnuðu í 55-55 og Ína setti þrist fyrir gestina. María jafnaði með þristi, Harpa kom þeim í 60-58 og Árný jafnaði.  Á síðustu mínútunni fór María tvívegis á vítalínuna en náði aðeins að setja 1 víti af fjórum. Njarðvík náði  vítafrákasti og geystist í sókn þegar 13 sek. voru til leiksloka og fengu dæmda villu og tvö vítaskot þegar rúmar tvær sek. voru eftir í stöðunni 61-60 fyrir Keflavík. Anna María Ævarsdóttir gat líklega tryggt UMFN sigurinn með að setja bæði niður. Fyrra vítið söng í netinu en seinna skotið geigaði og því þurfti að grípa til framlengingar.

Keflavíkurstelpur komu ákveðnar til leiks í framlengingunni og Telma setti tóninn með að setja fyrstu tvær körfunar. Vörnin var öflug og stelpurnar náðu mest tíu stiga forystu sem reyndist meira en gestirnir réðu við. Glæsilegur sigur í höfn sem tryggði efsta sætið í deildinni.  Það verður þó liðið í silfursætinu,  UMFN sem tekur sæti í Iceland Express deild kvenna að ári þar sem Keflavík á þegar lið fyrir.

 

Til hamingju stelpur

 

Keflavík b - UMFN

74-68 (19-16, 37-40, 47-49, 61-61)

Stigaskor Keflavíkur:

María Ben 19 (12/4), Eva Rós G. 17 (8/7), Telma Lind 15 (4/3), Ástrós 9 (4/4), Lóa Dís 6 (2/1), Árný Sif 4 (1/0), Árnína Lena 2 og Sigrún 2 (2/0).

Anita Eva, Sara Dögg, Soffía Rún og Erla Reynis. voru einnig í leikmannahópnum.

Vítanýting 33/19 eða 57,6%

 

Stelpurnar eiga eftir að klára einn útileik gegn Þór, Akureyri en úrslitin í þeim leik hafa enga þýðingu úr því sem komið er.

 

Sjá einnig umfjöllun á karfan.is;

http://www.karfan.is/index.php?option=com_content&task=view&id=8878&Itemid=1

 

Hópurinn fagnaði gullinu vel með Jóni þjalfara og Kolla aðstoðarþjálfara

 

Gullið komið um hálsinn

 

Árný, María og Telma sáttar með uppskeruna