Keflavík er Íslandsmeistari í 7. flokki drengja
7. flokkur drengja varð Íslandsmeistari s.l. sunnudagskvöld þegar þeir lögðu KRinga að velli í æsispennandi úrslitaleik 47-45.
Þar með lauk jafnframt frábærri úrslitahelgi í Toyotahöllinni þar sem Keflavíkurliðin unnu alla sína leiki og lönduðu tveimur Íslandsmeistaratitlum en aldrei fyrr hafa þrjú fjölliðamót farið fram sömu helgina í Toyotahöllinni.
Úrslitaleikurinn hjá drengjunum byrjaði nú ekkert sannfærandi hjá Keflavík. Spennustigið var greinilega hátt, enda mun betur mætt í Toyotahöllina en á meðal deildarleik í Dominosdeildinni, og andstæðingarnir virtust afslappaðri við þessar aðstæður. Meðan hittni gestanna var með ólíkindum áttu okkar drengir erfitt með að finna sinn leik og heilum 14 stigum munaði á liðunum í hálfleik og útlitið ekkert allt of gott.
Í 3. leikhluta fóru hlutirnir hins vegar heldur betur að smella og liðið lék við hvern sinn fingur þar sem vörnin var að vinna virkilega vel og gott flæði komst á sóknarleikinn. Drengirnir unnu þennan leikhluta með 13 stigum og leikurinn í járnum.
Í upphafi 4. leikhluta bætti Keflavík betur í ef eitthvað var og leiddi leikhlutann lengst af með nokkrum stigum þó gestirnir væru ávallt skammt undan. Lokamínúturnar urðu síðan rafmagnaðar. Þegar rúmlega ein og hálf mínúta var eftir á klukkunni átti KR boltann í stöðunni 45-45. Greinilegt var að þeir ætluðu að spila upp á að eiga síðustu sókn leiksins, en þess má geta að ekki er leikið með skotklukku í 7. flokki. Þegar rúmlega 16 sek. voru til leiksloka fengu KRingar dæmt á sig skref. Keflvíkingar tóku innkastið og boltinn barst til besta manns vallarins, Arnórs Sveinssonar sem var ekkert að tvínóna við hlutina heldur gerði strax árás á körfuna þar sem hann stikaði teiginn framhjá varnarmönnum gestanna í tveimur skrefum og lagði knöttinn í fádæma öruggu ley-upi niður 47-45 og þakið ætlaði af kofanum ! KRingar fengu tækifæri til að jafna leikinn og fengu dæmd tvö vítaskot þegar 2 sek. voru til leiksloka en þau geiguðu bæði og stórkostlegur sigur og Íslandsmeistaratitill í höfn hjá Keflavík.
Það er Björn Einarsson sem hefur þjálfað drengina undanfarin þrjú ár en þeir eru taplausir í vetur og hafa í allt leikið 23 sigurleiki í röð, þar af nokkra háspennuleiki sem hafa unnist á sterkum lokamínútum en keppnin í A-riðli er mjög jöfn og liðin að vinna hvort annað á víxl í mörgum tilfellum.
Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur óskar drengjunum öllum til hamingju með frábært tímabil.
Úrslit leikja Keflavíkur í lokamótinu;
Keflavík-Stjarnan 49-29
Keflavík-Haukar 48-35
Keflavík-Njarðvík 51-35
Keflavík-Fjölnir 49-36
Keflavík-KR 47-45