Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 18. apríl 2011

Keflavík handhafi allra Íslandsmeistaratitla kvenna 2011

Það voru tímamót í íslenskri körfuknattleikssögu í dag í Laugardalshöll þegar 9. flokkur stúlkna og stúlknaflokkur urðu Íslandsmeistarar. Með sigrunum var hringnum lokað. Allir kvennaflokkar Keflavíkur, frá Minnibolta til Meistaraflokks,  urðu Íslandsmeistarar á tímabilinu.  

9. flokkur stúlkna var með öruggan sigur á Njarðvík í úrslitaeinvíginu og urðu lokatölur 65-39. Sandra Lind Þrastardóttir var valin besti maður leiksins, en hún skoraði 16 stig, tók 20 fráköst og átti 3 stoðsendingar. Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst hjá Keflavík með 20 stig og 14 fráköst.

Stúlknaflokkur Keflavíkur átti svo lokaorðið þegar þær mættu Njarðvík í úrslitum kl. 16. Keflavíkurstúlkur byrjuðu af fullum krafti og náðu upp góðri forystu. Eftir það héldu þær dampi og í raun varð leikurinn aldrei spennandi. Lokatölur leiksins voru 64-43. Eva Rós Guðmundsdóttir var valin besti maður leiksins með 8 stig, 19 fráköst og 6 stoðsendingar.

Árangurinn er stórkostlegur, en hér er um að ræða fyrsta sinn í sögunni í núverandi keppnisfyrirkomulagi að eitt félag hirði alla Íslandsmeistaratitla í kvennaflokki. Það er óhætt að segja að þetta afrek verður seint jafnað.

 

Árangur Keflavíkurkvenna í vetur á Íslandsmótinu:

 

Keflavík Íslandsmeistarar í:

- Iceland Express deild kvenna eftir 3-0 sigur á Njarðvík

- Unglingaflokki kvenna eftir 72-70 sigur á Snæfell

- Stúlknaflokki eftir 64-43 sigur gegn Njarðvík

- 10. flokki kvenna eftir 71-31 sigur gegn Grindavík

- 9. flokki kvenna eftir 65-39 sigur á Njarðvík

- 8. flokki kvenna eftir sigur á fjölliðamóti

- 7. flokki kvenna eftir sigur á fjölliðamóti

- Minnibolta kvenna eftir sigur á fjölliðamóti

 

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur vill nota þetta tækifæri og óska öllum stelpunum innilega til hamingju með þennan árangur og það er ljóst að framtíðin er blússandi björt hjá kvennaflokkunum í Keflavík. Einnig ber að færa þjálfurun þessara liða sérstakar þakkir fyrir frábært afrek á tímabilinu, en þeir eru: Björn Einarsson, Jón Guðmundsson, Falur Harðarson og Jón Halldór Eðvaldsson.

Áfram Keflavík!

 


Minnibolti kvenna


7. flokkur kvenna


8. flokkur kvenna


9. flokkur kvenna


10. flokkur kvenna


Unglingaflokkur kvenna


Stúlknaflokkur kvenna


Meistaraflokkur kvenna