Fréttir

Körfubolti | 1. október 2006

Keflavík í undanúrslit Powerade bikarsins eftir öruggan 100-62 sigur gegn Tindastóli

Í kvöld kepptu Keflavík og Tindastóll í fjórðungsúrslitum Powerade bikarsins. Tindastóll kom á óvart og vann Snæfell í fyrstu umferð nokkur sannfærandi. Leikurinn í kvöld var frekar slitróttur framan af og var haustbragur á liðunum, ef svo má segja, því töluvert var um mistök og tapaða bolta, ekki síst þegar menn flýttu sér um of.

Keflavík náði strax smá forystu, ekki síst fyrir tilstilli Danans okkar, Tómasar Soltau, en sá hávaxni drengur fellur vel inn í liðið og er góður skotmaður, einnig utan 3ja stiga línunnar. Forystan var þó aldrei mikil, þetta 4-8 stig og í hálfleik var staðan 42-36 fyrir okkar menn.

Í seinni hálfleik skiptu okkar menn um gír og gengu frá gestunum sem virkuðu ráðvilltir í sókninni. Forystan jókst hratt og örugglega og þegar Sigurður Þorsteinsson skoraði 100. stigið var staðan orðin 100-62, en það var jafnframt lokastaðan.

Með þessum sigri tryggði Keflavík sér sæti í keppni hinna fjögurra fræknu, undanúrslitum Powerade bikarsins, sem fram fara í Laugardalshöll um næstu helgi. Þar verða andstæðingar okkar annað hvort Skallagrímur eða Haukar.

Allir leikmenn komu við sögu í kvöld og allir náðu að skora. Maggi og Arnar voru sprækir, auk Tómasar, en mesta athygli vöktu þó ungu drengirnir, Siggi Þ og Þröstur, en þeir voru ferskir og skoruðu báðir 13 stig.