Keflavik Íslandsmeistari í 7. flokki kvenna
Um helgina var leikið um Íslandsmeistaratitilinn í 7. flokki kvenna. Keppnin fór fram í Heiðarskóla á laugardag og í Toyota-höllinni á sunnudag. Stúlkurnar úr Keflavík höfðu titil að verja og voru ákveðnar í að gera það. Þær hafa æft mjög vel að undanförnu og vildu sanna um helgina að þær væru með besta liðið.
Fyrsti leikur var gegn Hrunamönnum. Liðið spilaði frábæra vörn og allir 14 leikmenn liðsins hjálpuðu til við að innbyrða sigur 41-9.
Næsti leikur var gegn KR. KR-stúlkur reyndust ekki mikil fyrirstaða og þrátt fyrir að Keflavíkurliðið hafi oft spilað betur þá sigruðu þær leikinn 37-15.
Á sunnudag var fyrst leikið gegn Njarðvík. Keflavíkurstúlkur voru lengi í gang, voru að brenna af sniðskotum og skotum af stuttu færi. Þær náðu þó að hrista Njarðvíkurliðið af sér og sigruðu leikinn 32-21. Keflavík náði að spila á mun fleiri leikmönnum í leiknum en einungis 7 leikmenn voru á leikskýrslu hjá Njarðvík.
Úrslitaleikurinn um Íslandsmeistaratitilinn fór fram kl. 13.00 í Toyota-höllinni en leikið var gegn Tindastóli. Keflavíkurstúlkur byrjuðu af miklum krafti, þær spiluðu frábæra vörn og áttu Tindastólsstúlkur í mestu vandræðum með að koma skoti á körfuna. Keflavík náði snemma góðri forystu sem þær héldu út allan leikinn og lokatölur urðu 52-15. Í þessum leik sýndu stúlkurnar virkilega sýnar bestu hliðar bæði í vörn og sókn, liðsheildin var frábær og mikill fögnuður braust út þegar lokaflautan gall og sigurinn var í höfn. Innilega til hamingju stúlkur - þið eruð vel að þessu komnar.
Áfram Keflavík
Fullt af myndum frá leikjum helgarinnar eru á heimasíðu stúlknanna.
Keflavik - Íslandsmeistarar 2011 í 7. flokki stúlkna
Stúlkurnar í Tindastól höfnuðu í 2. sæti og unnu til silfurverðlauna.