Keflavík Íslandsmeistari í 9. flokki kvenna
Keflavík tryggði sér um helgina Íslandsmeistaratitilinn í 9.flokki kvenna með sigri á Grindavík 40-31, en úrslitakeppnin var leikin í DHL-Höllinni að þessu sinni.
Það gekk brösulega hjá liðunum að koma boltanum í körfuna í upphafi leiks og greinilegt að spennustigið var í hærri kantinum enda staðan eftir fyrsta leikhluta 5-4 fyrir Grindavík. Í öðrum leikhluta fóru Keflvíkingar að láta meira að sér kveða og í hálfleik höfðu þær náð sex stiga forystu 18-12.
Í þriðja leikhluta komu Keflavíkurstelpur gríðarlega ákveðnar til leiks, léku öflugan varnarleik og sýndu svo ekki varð um villst að þær ætluðu sér aðeins sigur í þessum leik. Saðan var 30-18 eftir þriðja leikhluta og þrátt fyrir góða baráttu Grindvíkinga á endasprettinum náðu Keflavíkurstúlkur að halda haus og unnu verðskuldaðan níu stiga sigur 40-31.
María Ben Jónsdóttir var valin besti leikmaður leiksins úr röðum Keflavíkur með 13 stig, 17 fráköst og 10 varin skot, glæsileg þrenna hjá Maríu og fékk hún Spalding körfubolta frá Nike á Íslandi og veglega gjafakörfu frá Nóa Síríus að launum.
Lið Keflavíkur tapaði ekki leik í sínum aldurflokki í vetur og þær urðu einnig Bikarmeistarar. Í undanúrslitum lagði Keflavík lið Njarðvíkur að velli 87-32.
Þar sem hópurinn er stór og breiður tefldi Keflavík einnig fram B-liði í vetur sem hélt sér ávallt uppi í A-riðli og voru þar ýmist í öðru eða þriðja sæti. Í undanúrslitum Íslandsmótsins lék Keflavík B á móti Grindavík og tapaði 41-50, og því munaði ekki miklu að tvö Keflavíkurlið hefðu leikið til úrslita. Frábært tímabil hjá stelpunum og vonandi að þær haldi áfram á sömu braut.
Tölfræði leikjanna má nálgast á kki.is, karfan.is eða http://www.kr.is/karfa/frettir/