Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 29. mars 2011

Keflavík Íslandsmeistari í minnibolta stúlkna

Stelpurnar í Minnibolta 11.ára urðu Íslandsmeistarar í sínum aldursflokki um síðustu helgi þegar 4. og síðasta umferð Íslandsmótsins fór fram í Toyota höllinni í Keflavík, en þetta er yngsti árgangurinn sem keppir um þennan eftirsótta titil.

Óhætt er að segja að stelpurnar hafi farið á kostum í vetur en þær töpuðu ekki leik og unnu alla sína 16 leiki á Íslandsmótinu með talsverðum yfirburðum. Þarna er komið enn eitt stúlknalið félagsins sem á sér glæsilega framtíð í körfuboltanum ef þær halda rétt á spilunum og verða áfram jafn duglegar að æfa og leggja sig fram. Nú þegar eru 7. og 8. flokkur stúlkna einnig búnar að landa Íslandsmeistaratitli þetta árið.

Stelpurnar byrjuðu helgina snemma og héldu hárgreiðslupartý kvöldið fyrir mót þar sem góð stemming ríkti og línurnar fyrir helgina voru lagðar. Liðið mætti síðan ákveðið til leiks að laugardagsmorgni og lék við hvern sinn fingur hvort sem var í vörn eða sókn. Baráttan var til mikillar fyrirmyndar og greinilegt að stelpurnar voru vel upplagðar fyrir verkefni helgarinnar.

Á laugardag var fyrst leikið gegn liði Ármanns og urðu lokatölur 52-13. Seinni leikurinn var gegn Grindavík og urðu lokatölur þar á svipuðum nótum, 59-11. Aldrei spurning um sigur í þessum leikjum.

Eftir mótið á laugardag hittist liðið í mat heima hjá Þórunni Þorbergs og horfði síðan mynd saman áður en farið var á koddann í hvíld fyrir átök sunnudagsins.

Á sunnudag sigruðu stelpurnar lið Fjölnis 62-15 í þriðja leik. Að lokum var leikið til úrslita gegn spræku liði Hrunamanna. Töluverð spenna og barátta var í báðum liðum í upphafi leiks og var staðan eftir 1. leikhluta 11-3 og í halfleik stóðu leikar 22-8 fyrir Keflavík. Í síðari hálfleik dró í sundur með liðunum og svo fór að Keflavík sigraði mjög örugglega 60-19. Hrunamenn höfnuðu í öðru sæti og tóku silfrið og óskum við þeim til hamingju með það.

Eftir verðlaunaafhendingu bauð Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur nýbökuðum Íslandsmeisturum í pizzuveislu á Langbest. Frábær helgi og  Íslandsmót að baki hjá stelpunum og ekki má gleyma Birni Einarssyni þjálfara stúlknanna sem hefur unnið afbragðs starf með þær í vetur. 

TIL HAMINGJU STELPUR - ÞIÐ ERUÐ LANG FLOTTASTAR

Keflavík - Íslandsmeistarar í minnibolta stúlkna 2011

Hrunamenn höfnuðu í 2. sæti og unnu silfur

 

Björn þjálfari sáttur með bikarinn og stelpurnar