Keflavík Íslandsmeistari í unglingaflokki kvenna eftir hreint ótrúlegan leik
Unglingaflokkur kvenna átti lokaleik Keflavíkurliðanna á Íslandsmótinu í körfubolta þetta keppnistímabil þegar þær mættu liði Snæfells s.l. sunnudag í DHL höllinni í hreinum úrslitaleik um titilinn.
Daginn áður hafði Keflavík lagt lið Hauka að velli í undanúrslitunum 73-63 meðan lið Snæfells lagði Valsstúlkur að velli 68-52.
Fyrirfram má kannski segja að bikarmeistarar Snæfells hafi verið sterkari á pappírunum, enda bæði hærra og eldra lið þar á ferðinni og leiddu þær leikinn lengst af. Keflavík náði hins vegar með ótrúlegri seiglu að jafna leikinn á ögurstundu í tvígang og knýja fram tvær framlengingar og svo fór að lokum að Keflavík náði að vinna stórkostlegan sigur, 105-94, en þá voru einir 8 leikmenn í báðum liðum sestir á rekkverkið með 5 villur.
Leikurinn kemst jafnframt í sögubækurnar fyrir þær sakir að dómarar leiksins ákváðu að styðjast við myndbandsupptökur frá lokamínútu venjulegs leiktíma til að fá úr því skorið hvort jöfnunarkarfa Söru Rún Hinriksdóttir hefði verið innan leiktíma eður ei. Tók þessi aðgerð u.þ.b. 15 mínútur meðan leikmenn biðu spenntir á gólfinu eftir úrskurði dómara sem var Keflavík í vil líkt og áður kemur fram.
Þessi titill fær númerið 226 í safni félagsins yfir heildarfjölda Íslands- og bikarmeistaratitla.
TIL HAMINGJU STELPUR
Mikla umfjöllun um leikinn á karfan.is má nálgast hér
Umfjöllun um úrskurð dómara leiksins á karfan.is má nálgast hér
Mynd nonni@karfan.is