Keflavík lagði Njarðvík í ekta bikarslag og leikur til úrslita gegn Grindavík - umfjöllun um leikinn
Troðfullt hús, fín stemmning og taugaspennan í hámarki, því stærsti leikur ársins var í húfi, sjálfur Bikarúrslitaleikurinn sem fram fer í Höllinni laugardaginn 18. febrúar. Og ekki spillti fyrir að um nágrannaslag var að ræða. Verður vart betra.
Leikurinn var hraður og skemmtilegur, þó vissulega hafi dómararnir ákveðið að dæma frekar stíft allan tímann. Ekki var sjáanlegt að það hafi bitnað á öðru liðinu frekar en hinu, en samt má segja að flæðið fari úr leiknum þegar svo mikið er flautað, því ansi stór hluti leiksins fer fram á vítalínunni. Bæði lið misstu líka tvo menn af velli með fimm villur, Njarðvíkingar misstu Friðrik Stef og Halldór Karlsson en við misstum þá Arnar Frey og Jonna útaf. En hvað um það, að leiknum sjálfum.
Í byrjun var ljóst að Keflavík ætlaði að keyra upp hraðann, því ansi erfitt er að skora gegn sterkri Njarðvíkurvörn þegar turnarnir tveir ná að stilla sér upp. Það gekk vel og Keflavík náði fljótt frumkvæðinu. AJ var óstöðvandi og gerði 15 stig í fyrsta leikhluta (endaði með 33 stig). Brenton fór fyrir sínum mönnum og setti niður stökkskot á færibandi, 10 stig í byrjun. Töluverð harka var í leiknum og stóð Ástralinn okkar, Vlad Boer, sig vel í því að halda Frikka Stef frá körfunni, þó það hafi kostað hann nokkrar villur.
Í öðrum leikhluta var flugeldasýning sett í gang eins og þær gerast bestar í Sláturhúsinu. Þristar frá Magga Gunn, Gunna Stef, Dóra og Ella, en allir nema Maggi komu þeir heitir inn af bekknum. Vörnin aggressíf og sóknarleikurinn hraður. Arnar Freyr keyrði upp hraðann af miklu öryggi og lék oft félaga sína uppi, átti t.d. nokkur gegnumbrot sem enduðu með stoðsendingum á AJ sem fann sér stað undir körfunni. Munurinn óx hratt og varð mestur 19 stig, að mig minnir. En Njarðvíkingar náðu að rétta sinn hlut, sér í lagi fyrir tilstilli Jeb Ivy sem setti niður skot og var duglegur við að koma sér á vítalínuna, en þar er hann nánast óskeikull. Í hálfleik var munurinn 13 stig, 56-43, og heimamenn undu glaðir við sitt.
En svo byrjaði fjörið fyrir alvöru, Guðmundur Jónsson hrökk í gírinn og smellti 10 stigum á no-time og forystan minnkaði niður fyrir 10 stig og festist síðan í um 4 til 8 stigum mest allan seinni hálfleikinn, varð minnst tvö stig. En Keflvíkingar stóðust áhlaupið og Sverrir Þór límdi sig á Brenton sem náði ekki að gera mikinn usla á lokasprettinum. Ivy einspilaði töluvert og var duglegur að skora, en stóru mennirnir hjá Njarðvík voru í góðri gæslu. Sóknarleikur okkar manna varð eilítið stirðari en strákarnir héldu áfram að keyra inn í vörn Njarðvíkinga og héngu á forystunni eins og hundar á roði. Fyrirliðinn, Gunnar Einarsson, átti svo körfu dagsins þegar um mínúta lifði leiks, fékk sendingu frá AJ innan úr teig og smellti niður risa þristi, jók með því muninn upp í fimm stig og gerði nánast út um leikinn. Lokastaðan var 89-85 og Keflavík á leiðinni í Höllina.
Frábær leikur hjá okkar mönnum, sérstaklega að halda haus, en það getur verið erfitt þegar fast er sótt að okkur, líkt og Njarðvík gerði. Mikið var um skemmtileg tilþrif í leiknum, en ekkert þó jafn glæsilegt og þegar AJ varði troðslu hjá Brenton. Svakalegt! Brenton stal boltanum og geystist fram völlinn og AJ sprettaði á eftir honum. Brenton ætlaði ekki að taka neinn séns og hugðist troða með báðum höndum en AJ gerði sér lítið fyrir, stökk af öllu afli og sagði nei takk. Varði troðsluna "clean" og lýðurinn trylltist. Maður hefur séð mörg blokk um ævina, en þetta var með því rosalegra. AJ var frábær í leiknum og duglegur við stigaskorunina. Maggi var í góðri gæslu, fékk ekki mikið af opnum skotum, en setti nokkur og lék vel. Allir skiluðu sínu og sérstaklega má minnast á Dóra sem hefur tekið upp á því að tippa niður fráköstum í gríð og erg, líkt og Jonni hefur verið þekktur fyrir í gegnum tíðina. Dóri frákastaði líka vel og stóð sig vel gegn Frikka, líkt og Vlad. Heilt yfir var þetta flott hjá okkar mönnum, enn og aftur sýna þeir hvað í þeim býr þegar allt er undir. Breidd hópsins kom vel í ljós og má segja að "bekkurinn" hafi gert gæfumuninn í leiknum.
Um leið og við þökkum Njarðvík fyrir hörkuleik óskum við strákunum og þjálfurum til hamingju með sigurinn! ÁFRAM KEFLAVÍK!