Fréttir

Körfubolti | 8. júlí 2007

Keflavík landsmótsmeistarar í körfu

Bæði liðin okkar stóðu sig vel á landsmótinu sem fram fór um helgina í Smáranum í Kópavogi. Kvenna liðið tapaði fyrir liði ÍBH ( Haukar ) 47-21 í úrslitaleik og var Svava Ósk stigahæst með 6 stig en næst kom María Ben með 5 stig.

Úrslit og stigaskor úr öllum leikjum.

Það var mikil spenna í karlaleiknum sem var mjög skemmtilegur. Fjölnir hafði frumkvæðið framan af leik en munurinn var þó aldrei mikill. Keflavík tók hinsvegar frumkvæðið í leiknum með að skora átta síðustu stig fyrri hálfleiksins og var því komið 22-18 í hálfleik. Keflavík var 26-24 yfir fyrir lokaleikhlutann en í honum lifnaði mikið yfir sóknarleik beggja liða. Fjölnismaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði meðal annars þrjár þriggja stiga körfur í leikhlutanum en það var hinsvegar Helgi Hrafn Þorláksson sem kom Fjölni í 39-36 með fjórða þristi Fjölnismanna í leiknum. Magnús Þór Gunnarsson tryggði Keflavík aftur á móti framlengingu með því að skora úr þremur vítaskotum eftir að brotið hafði verið á honum í þriggja stiga skottilraun.

Fjölnir var sterkari í framlengingunni en fimm stig frá Magnúsi Þór Gunnarssyni héldu þó Grafarvogsbúum við efnið en fyrirliði Keflavíkur skoraði 14 af 16 stigum sínum í fjórða leikhuta og framlengingu eftir að hafa klikkað á 11 af 12 fyrstu skotum sínum í leiknum.

Hörður Axel Vilhjálmsson átti mjög góðan leik í liði Fjölnis en hann skoraði 18 stig og gaf 7 stoðsendingar í leiknum. Kristinn Jónasson var einnig sterkur með 12 stig og 9 fráköst en hann er nýkominn til Fjölnisliðsins frá Haukum. Helgi Hrafn Þorláksson skoraði einnig mikilvæg stig á lokasprettinum.
Magnús Þór Gunnarsson hitti ekki neitt framan af leik en var illviðráðanlegur í lokin en framan af leik hélt Sigurður Gunnar Þorsteinsson uppi sóknarleik Keflavíkurliðsins en miðherjinn stóri og sterki var með 13 stig, 9 fráköst og 3 varin skot í leiknum. Hinn ungi Sigfús Árnason (6 stig og 4 fráköst á 17 mínútum) kom einnig með mikinn kraft inn af bekknum og stóð sig mjög vel.

( kki.is )

Magnús Þór Gunnarsson var atkvæðamestur með 16 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 13, Sigfús Árnason 6, Gunnar Einarsson 5, Jón Gauti Jónsson 3, Elvar Þór Sigurjónsson 2.

Sigurður Ingimundarsson sagði í stuttu viðtali við heimasíðuna að hann væri ánægður með strákana og sér í lagi hefðu yngri strákarnir komið vel út. Þröstur átti góða leiki ásamt Sigurði Þorsteinsyni en einnig var Sigfús Árnason sprækur og nýtti sínar mínutur vel.  Þröstur var þó ekki með í úrslitaleiknum.

kki.is
Karfan.is