Fréttir

Karfa: Karlar | 19. apríl 2010

Keflavík leiðir 1-0

Keflvíkingar unnu yfirburðasigur í kvöld þegar Snæfellingar mættu í Toyota Höllina, en lokatölur leiksins voru 97-78. Það var einstefna frá fyrstu mínútum leiksins hjá Keflavík og áttu Snæfellingar fá svör við öflugum varnarleik og snörpum sóknum Keflvíkinga. Sean Burton glímir við meiðsli og var víðs fjarri í þessum leik. Eflaust biðu margir eftir því að eitthvað myndi bresta hjá Keflavíkurliðinu og að Snæfellingar kæmu með öfluga syrpu sem myndi saxa vel á forskotið, en það gerðist aldrei. Þrátt fyrir að frákasta vel, þá voru Snæfellingar bara með hausinn í langtíburtuistan. Einnig virkuðu þeir mjög óöruggir í sóknarleik sínum, þar sem allir hentu reglulega boltanum á þann sem átti að klára. Málið var bara að það var enginn til að klára sóknina hjá þeim. Hlynur Bæringsson stóð sig á köflum þokkalega, en hann var ekki sérlega beittur í því að keyra inn undir körfuna og skora. Skelfileg hittni hjá liðinu var ekki eitthvað sem þeir þurftu á að halda ofan í þessa spilamennsku sína, því miður.

Þeir Draelon Burns og Hörður Axel voru báðir með 20 stig, ásamt Urule Iagbova og tók hann auk þess 10 fráköst.Urule setti niður 9 af 10 teigskotum sínum í leiknum og fór hann hamförum undir körfunni á köflum. 
Hjá Snæfell var Hlynur Bæringsson með 22 stig, 13 fráköst og 6 stolna bolta en Sigurður Þorvaldsson var með 20 stig og 6 fráköst.
 
Ekki leiðinleg byrjun hjá Keflvíkingum og nú er bara að landa sigri í næsta leik, en hann verður háður á Stykkishólmi á fimmtudaginn næstkomandi klukkan 19:15. Það er frídagur þennan dag og allir Keflvíkingar hvattir til að gera sér ferð í Hólminn og styðja við strákana.
 
Rútuferðir verða frá Sunnubrautinni klukkan 15:30 og kostar 1000kr í rútuna. Fyrstir koma, fyrstir fá lögmálið mun gilda, en rútan tekur 58 manns.
 
Áfram Keflavík!