Fréttir

Karfa: Karlar | 18. mars 2011

Keflavík leiðir 1-0

Keflvíkingar lögðu ÍR-inga að velli í kvöld í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deild karla. Lokatölur leiksins voru 115-93 og Keflvíkingar leiða því 1-0.

Það voru Keflvíkingar sem mættu sterkari á völlinn í upphafi leiks og gáfu tóninn. Þeir pressuðu ÍR-inga stíft, en á köflum var vörnin þó galopin. ÍR-ingar nýttu sér það eftir fremsta megni og máttu því þakka að ekki var meiri munur á liðunum í fyrri hálfleik heldur en raun bar vitni. ÍR-ingar náðu þó að sýna klærnar og jafna leikinn 37-37 í 2. leikhluta. Keflvíkingar spýttu í lófana og sigu hægt og bítandi fram úr á lokamínútum fjórðungsins. Kelly Beidler var sterkur hjá ÍR í fyrri hálfleik og náði m.a. að skora flautukörfu undir lok fyrri hálfleiks, spjaldið ofan í. Staðan í hálfleik var 54-47.

Keflvíkingar héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og leyfðu ÍR-ingum aldrei að komast almennilega inn í leikinn. Hörður Axel vann vel í 3. leikhluta og Andrija Ciric fékk að athafna sig mikið í 4. leikhluta með tilheyrandi stigum. Keflvíkingar gáfu ekkert eftir á lokamínútum leiksins og lokatölur leiks voru 115-93 eins og fyrr segir.

Næsti leikur fer fram í Seljaskóla á mánudaginn, en þá geta Keflvíkingar tryggt sér sæti í 4-liða úrslitum með sigri. Hvetjum alla til að láta sjá sig og öskra úr sér lungun.

Heildarskor:

 

Keflavík: Andrija Ciric 24/7 fráköst, Thomas Sanders 22/11 fráköst/5 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 21/8 fráköst/12 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 17/6 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 9/4 fráköst, Jón Nordal Hafsteinsson 7, Gunnar Einarsson 5, Þröstur Leó Jóhannsson 5, Gunnar H. Stefánsson 3, Halldór Örn Halldórsson 2, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Kristján Tómasson 0.

 

ÍR: Kelly Biedler 23/5 fráköst/7 stoðsendingar/3 varin skot, Nemanja Sovic 22/8 fráköst, James Bartolotta 22, Níels Dungal 9/4 fráköst, Sveinbjörn Claessen 7, Hjalti Friðriksson 4, Eiríkur Önundarson 3, Davíð Þór Fritzson 2, Tómas Aron Viggóson 1, Vilhjálmur Theodór Jónsson
0, Þorgrímur Emilsson 0, Ásgeir Örn Hlöðversson 0.

 

 

 

Maggi Gun skoraði 9 stig í kvöld (mynd: karfan.is)