Keflavík mætir Njarðvík í "hinum fjóru fræknu" í Powerade-bikarnum
Tíu stiga sigur í fyrri leiknum gegn Grindavík var þægilegt veganesti í seinni leikinn í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins í kvöld. Það er erfitt að vinna með 10 stigum í Keflavík og það mátti sjá á gestunum að þeir höfðu ekki mikla trú á að þeir gætu það. En okkar menn með Magga Gunn í fararbroddi voru hins vegar staðráðnir að láta kné fylgja kviði og gera út um leikinn strax í byrjun. Maggi setti í gang 3ja stiga sýningu og vörnin var grimm. Afleiðingin var sú að Keflavík náði strax afgerandi tökum á leiknum sem aldrei voru látin af hendi. Munurinn fór fljótlega upp í 15 stig en var um 10 stig í hálfleik. Minnkaði niður í fimm stig, en þá kom sér vel að eiga 10 stig inni frá fyrri leiknum. Í lokin höfðu Grindjánar gefist upp og leikurinn endaði með öruggum 17 stiga sigri, 84-67.
AJ varð fyrir því óláni að snúa á sér ökklann og verður eflaust einhverja daga að jafna sig, vonandi ekki meira en það. Hann meiddist í upphafi annars leikhluta þegar forystan var örugg. Engu að síður fór um stuðningsmenn Keflavíkur þegar í ljós kom að hann myndi ekki leika meira með liðinu þennan daginn. En þrátt fyrir þessa blóðtöku var leikurinn í öruggum höndum allan tímann. Maggi slakaði að vísu á í stigaskoruninni (var kominn með 16 snemma í fyrri hálfleik og endaði með 24), en aðrir tóku við og skiptu í raun stigaskorinu afar jafnt á milli sín. Þriggja stiga nýtingin var góð, 11 af 23 (48%) og þar af átti Maggi 6 af 10. Halldór átti skínandi leik, hirti ógrynni varnarfrákasta (alls 9) og skoraði einnig 11 stig. Allir leikmenn liðsins náðu að skora, einnig Þröstur sem kom inn þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum. Zlatko tók 8 fráköst, en þarf að herða sig aðeins undir körfunum, gegn liði eins og Grindavík á hann auðveldlega að geta gert amk 15 stig, sökum hæðarmismunar. Leiktíminn og stigaskorið skiptist að öðru leyti jafnt milli manna.
Annars var leikurinn kannski ekki mikið fyrir augað og stundum full mikið kæruleysi í gangi í sóknarleiknum, töluvert um tæknileg mistök og slakar sendingar. Alls tapaði Keflavíkurliðið boltanum 25 sinnum sem er allt of mikið og ber vitni um kæruleysi. En vörnin var ágæt sem sést á því að Grindavík gerði eingöngu 67 stig, en þeir treysta verulega mikið á skot utan af velli og fara lítið inní teiginn, tóku 32 þrista, en hittu aðeins fimm sinnum (16% hittni). Manni segir svo hugur um að innan tíðar muni þeir bæta við sig hávöxnum Evrópuleikmanni til að styrkja liðið undir körfunum, en þeir tóku aðeins 24 fráköst gegn 42 hjá Kef. Nýji Kaninn þeirra er lipur og flinkur, en var ekki öflugur við stigaskorun, amk. ekki í þessum leik, gerði 13 stig og hitti úr 5 af 15 skotum.
Nú erum við komnir í undanúrslitin, "hin fjögur fræknu" sem háð verða 18. og 19. nóvember næst komandi. Þar mætum við sterkum Njarðvíkingum og í hinum undanúrslitunum leika Reykjavíkurliðin KR og Fjölnir. Þetta verða hörkuleikir og maður getur strax farið að hlakka til leiksins gegn Njarðvík sem eflaust verður flottur!
ÁFRAM KEFLAVÍK