Keflavík með sigur á nýju ári
Keflavík kjöldró ÍR í Hertz Hellinum í Breiðholti í kvöld. Rúmlega klukkustundar töf varð á leiknum þar sem leikklukkan í húsinu virkaði ekki sem skyldi en þá er gott að eiga góða granna og búnaður úr Austurbergi var notaður við leikframkvæmdina. ÍR hefur ekki unnið Keflavík í Breiðholti í deildarkeppni úrvalsdeildar síðan í desember 2007 og mega því enn bíða eftir að leggja Suðurnesjamenn í borginni. ÍR-ingar hafa þó unnið heima gegn Keflavík síðan 2007 en það eru leikir í úrslitakeppni. Lokatölur í Breiðholti í kvöld voru 84-111 og yfirburðir Keflavíkur umtalsverðir.
Hreggviður Magnússon fékk snemma þrjár villur og komst aldrei almennilega í takt við leikinn. Keflvíkingar byrjuðu betur en ÍR klóraði í bakkann og staðan 19-25 að loknum fyrsta leikhluta. Michael Craion var grimmur frá fyrstu mínútu og splæsti m.a. í rándýra troðslu í fyrsta leikhluta.
Varnarleikur heimamanna í Breiðholti var dapur og það þýðir lítið þegar bakverðirnir Magnús Þór og Valur Orri bregaða á leik. Keflavík lét 30 stigum rigna yfir ÍR í öðrum leikhluta og leiddu 36-55 í hálfleik. Craion var kominn með 14 stig og 15 fráköst í Keflavíkurliðinu í fyrri hálfleik og Darrel Lewis var beittur og þá sérstaklega varnarlega.
Ef annar leikhluti var slakur varnarlega af hálfu ÍR-inga var sá þriðji hrein hörmung, Keflvíkingar, eins og hvítháfurinn, finna lykt af blóði í órafjarlægð og þeir veittu gestgjöfum sínum náðarhöggið í þriðja leikhluta. Heil 37 stig fengu ÍR-ingar að þola en leikhlutinn fór 30-37 fyrir Keflavík svo það má vel saka bæði lið um að hafa gleymt sér aðeins í fjörinu á sóknarhelmingi vallarins.
Fjórði leikhluti var aldrei til umræðu, leikurinn var eign Keflavíkur og lokatölur 84-111. Craion átti magnað kvöld hjá Keflavík með 32 stig og 19 fráköst. Nýji maðurinn Baptist gerði 18 stig og virðist vera hörkuspilari og mun þ.a.l. nýtast Keflavík betur en McDowell sem fór frá félaginu fyrir jól. Sá kauði hékk svo mikið á boltanum að óstöðugar og óstaðfestar fregnir herma að hann hafi tekið amk 2-3 stykki með sér aftur til Bandaríkjanna.
Hjá ÍR bar Eric Palm af með 29 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Aðir voru fjarri sínu besta og varnarleikur liðsins afspyrnu slakur. Andleysið í herbúðum ÍR kom á óvart en að sama skapi voru gestirnir vel stemmdir og virðast koma vel undan jólum.
ÍR: Eric James Palm 29/5 fráköst, Sveinbjörn Claessen 12, Vilhjálmur Theodór Jónsson 12/4 fráköst, Nemanja Sovic 10/10 fráköst, Hreggviður Magnússon 9/4 fráköst, Hjalti Friðriksson 6, Ellert Arnarson 5/5 fráköst, Þorvaldur Hauksson 1, Þorgrímur Emilsson 0, Ólafur Már Ægisson 0, Tómas Aron Viggóson 0, Friðrik Hjálmarsson 0.
Keflavík: Michael Craion 32/19 fráköst/3 varin skot, Billy Baptist 18/6 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 17, Valur Orri Valsson 16/8 stoðsendingar, Darrel Keith Lewis 12/4 fráköst, Ragnar Gerald Albertsson 5, Andri Daníelsson 3, Snorri Hrafnkelsson 3, Hafliði Már Brynjarsson 3, Almar Stefán Guðbrandsson 2/8 fráköst, Andri Þór Skúlason 0, Sigurður Vignir Guðmundsson 0.
Tekið af Karfan.is