Fréttir

Keflavík með silfur í 8. flokki drengja
Körfubolti | 5. maí 2016

Keflavík með silfur í 8. flokki drengja

Drengirnir í 8. flokki spiluðu um síðustu helgi til úrslita á Íslandsmótinu. Úrslitin fóru fram í Dalhúsum í Grafarvogi en Fjölnismenn höfðu í vetur unnið sér heimaleikjarétt fyrir síðasta mótið. Keflavíkurliðið var ríkjandi Íslandsmeistari síðustu tveggja ára en árin á undan höfðu Valsmenn veitt þeim hvað harðasta keppni. Nokkuð ljóst var að baráttan yrði á milli þessara þriggja liða.

Keflavík byrjaði á að því að vinna KFÍ eftir framlengdan og vægast sagt sveiflukenndan leik. Þar næst mættu Keflvíkingar orkumiklu liði KR og unnu okkar drengir nokkuð sannfærandi sigur. Síðasti leikur laugardagsins var svo á milli Valsmanna og Fjölnismanna og vann Valur þann leik eftir ótrúlegan tvíframlengdan leik. Þá var ljóst að Keflavík yrði að vinna Val í fyrsta leik sunnudagsins en því miður fyrir Keflavík þá vann Valur þann leik eftir mjög harða rimmu, þar sem Valur seig fram úr á lokamínútum leiksins. Það var því ljóst þá að Valsmenn voru orðnir Íslandsmeistarar. Síðasti leikur mótsins var svo á móti Fjölni og spiluðu Keflavíkingar þar sinn besta leik í vetur þegar þeir lögðu þá með 11 stigum. Voru drengirnir gríðarlega vel studdir úr áhorfendastúkunni, þar sem stúlkurnar 8. flokkur kvenna mættu m.a. í stúkuna.

Þó svo að Keflvíkingarnir hafi ætlað sér gullið þá var mikil ánægja með niðurstöðu þessa vetrar. Drengirnir gáfu allt sitt í lokamótið. Ekkert var gefið eftir í því að verja titilinn þar sem leikgleðin var höfð í fyrirrúmi. Drengirnir gátu gengið stoltir af velli eftir að erfiðan og sveiflukenndan vetur.