Keflavík og Skallagrímur - smá hugleiðing eftir fyrsta leik
Leikurinn í gær var bráðfjörugur, þó manni hafi fundist sigurinn nokkuð öruggur allan tímann. Það hitnar ávallt í leikmönnum þegar komið er í úrslitakeppni og skemmtilegur rígur myndast á milli liða sem keppa gegn hvort öðru aftur og aftur, kannski fimm sinnum á tíu dögum eða svo. Í gær sáum við nokkur atriði sem eiga eftir að skipa miklu máli fyrir framgang seríunnar sem nú er í forystu okkar manna. Kíkjum aðeins á það:
George Byrd er helsti styrkleiki en jafnframt helsti veikleiki Skallagrímsmanna. Hann er afar sterkur á "low post" og ef hann fær tækifæri til að fara einn-á-einn með bakið í körfuna getur enginn einn leikmaður í Keflavík stöðvað hann, það sást klárlega í gær. Hann átti í meiri erfiðleikum gegn svæðisvörninni, en á móti losnaði þá meira um skyttur Skallana. Galdurinn er að gefa Byrd ekki færi á 1-á-1, án þess að gefa opið 3ja stiga skot :) .... hljómar einfalt en kannski ekki alltaf auðvelt í framkvæmd.
Á móti kemur að Byrd getur engann dekkað í Keflavíkurliðinu. Hann reyndi við Vlad sem smellti þá niður þristum og svo reyndi hann við Jonna, en sá labbaði fram hjá honum hægri og vinstri. Hann reyndi líka að dekka AJ í smá stund, en AJ gat þá komist í frítt 3ja metra skot að vild. Þess vegna munu Skallar líka detta í svæðisvörn annað slagið en þá nýtist kannski Byrd best í vörninni. Svæðisvörn getur þó verið hættuleg gegn Keflavík, en stundum virkað vel. Til að nýta veikleika Byrd er lykilatriði að Jonni, Vlad og Dóri séu aggressívir í sókninni.
Það sást líka í gær að fyrir utan Byrd eru það helst 3ja stiga skotin sem Skallarnir lifa á, enda margar góðar skyttur í liðinu. Skallar treysta mun meira á 3ja stiga skot en Keflvíkingar sem þó eru þekktar langskyttur. Ef maður kíkir í deildina í vetur þá hafa Skallar bæði hitt betur (37% á móti 34%) og líka skorað meira (275 á móti 185) af þristum. Jovan er eitruð skytta sem þarf engan tíma til að skjóta, margir hina eru meira "streaky" og geta dottið í stuð, t.d. Hafþór. Í stuttu máli má segja að sóknarleikur Skalla byggist á Byrd inní og þristar fyrir utan. Betra er að láta Byrd malla 25-30 stig heldur en að hleypa skyttunum í stuð.
Kefarar voru góðir á Köflum í gær, Sverrir kveikti í pressuvörninni í fyrri hálfleik og svo voru Maggi og Jonni flottir á lokakaflanum. AJ var solid allan tímann og lék góða vörn. Best gekk þegar pressan var í botni og allt á fullu. Þá urðu Skallar smeykir og gerðu mistök. Mikilvægt er líka að halda hraðanum í botni allan tímann, því Byrd og Jovan verða svolítið þyngri í lok en upphafi leiks, þegar þeir þurfa mikið að hlaupa.
Við eigum mikið inni, bæði sóknar og varnarlega. Gunnarnir og Arnar Freyr voru í rólegri kantinum í gær, en gott var að sjá "stóru" mennina okkar spræka, en það er algert lykilatriði í þessu einvígi. Þeir vita að það verður alltaf einn þeirra frír, sá sem Byrd er að dekka, og nauðsynlegt að nota sér það. Skytturnar okkar voru ekki "on fire" í gær, en það kviknaði í Magga í lokin, og gerð það útslagið. Reyndar var jú Vlad heitur fyrir utan línuna.
Jæja, nóg að sinni. spennandi leikur framundan á morgun, erfiðir andstæðingar á erfiðum heimavelli. Ef sigur vinnst á morgun, er einvígið nánast búið, en tap á morgun setur allt á byrjunarreit. ÁFRAM KEFLAVÍK!