Fréttir

Karfa: Karlar | 19. febrúar 2012

Keflavík Powerade bikarmeistarar 2012

Okkar menn í Keflavík sýndu það og sönnuðu á laugardaginn að þeira eiga hörkulið sem getur komst alla leið, þegar
þeir lögðu Tindastólsmenn að velli í úrslitaleik Powerade bikarkeppninnar. Keflvíkingar voru fljótir að koma sér upp
forystu í leiknum og héldu henni nokkuð jafnt og þétt út allan leikinn. Þó voru Stólarnir nokkuð nálægt því á köflum að
gera sig líklega til afreka, en Keflavíkurvörnin hélt!

Gríðarleg stemming og mæting var í húsinu, en gamlir jálkar telja sig aldrei hafa séð jafn mikið af fólki komið saman á
úrslitaleik í bikarnum í körfunni. Sauðkræklingar mættu sennilega með 1/3 af sínu bæjarfélagi, en þeir voru fjölmennari
heldur en Keflvíkingarnir í húsinu og létu svo sannarlega í sér heyra.

Charles Parker var valinn maður leiksins með 32 stig og 13 fráköst. Hann átti magnaða kafla í leiknum sem hjálpaði
liðinu oftar en ekki að styrkja sína forystu á köflum.

Karfan.is var með mjög góða úttekt á leiknum og leyfum við henni að fljóta með einnig:

Keflavík tryggði sér bikarmeistaratitilinn 2012 eftir sigur á Tindastól í Laugardalshöllinni í dag, 97-95.  Keflavík leiddi leikinn frá upphafi til enda en Tidnastóll hleypti þeim þó aldrei langt frá sér og hefðu með smá heppni undir lokin vel getað stolið sigrinum.  Keflavík náði mest 14 stiga forskoti en lengst af var um það bil 10 stiga munur á liðunum.  Tindastóll tókst þó að koma sér inní leikinn á lokasprettinum.  Það dugði ekki til og Keflavík vann því tveggja stiga sigur og eru Powerademeistarar árið 2012.  Mikilvægasti leikmaður leiksins var vel að titilinum kominn, Charles Parker með 32 stig, 13 fráköst og þessum 32 stigum skilaði hann niður með ótrúlega 64,7% nýtingu í teigskotum og 2 af þremur þristum ofaní.  næstu menn hjá Keflavík voru Jarryd Cole með 19 stig og 8 fráköst og Magnús Gunnarsson með 17 stig og 8 stoðsendingar.  Í liði Tindastóls var Maurice Miller stigahæstur með 22 stig og 8 stoðsendingar en næstir voru Curtis Allen með 18 stig og Svavar Atli Birgisson með 14 stig og 9 fráköst. 


Það var lið Keflavíkur sem mætti með mun meiri ákefð í leikinn í dag.  Strax eftir rúmar tvær mínútur af leik höfðu þeir náð 5 stiga forskoti, 8-3 og spiluðu mjög sannfærandi varnarleik.  Tindastóll svaraði þó um hæl með næstu 4 stigum, 8-7.  Keflvíkingar keyrðu hratt á Tindastól og uppskáru í nokkur skipti auðveldar körfur.  Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður höfðu þeir 14-11 yfir og sýnilega nokkur tök á leiknum.  Friðrik Hreinsson gerði vel i að halda sínum mönnum inní leiknum og hafði skorað 7 af 13 stigum Tindastóls þegar þeir tóku leikhlé í stöðunni 22-13.  Keflavík hafði svo náð muninum upp í 10 stig þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta.  Tindastóll var að skjóta mikið fyrir utan sem reyndist þeim afar illa en þeir höfðu þá sett niður eitt þriggja stiga skot í sex tilraunum.  Forskot Keflavíkur var komið upp í 14 stig þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leikhlutanum.  Þá kom hins vegar önnur þriggja stiga karfa Tindastóls í leiknum frá Svavari Atla Birgissyni og munaði því 11 stigum á liðunum eftir fyrsta leikhluta, 29-18. 
 
Tindastóll fann sig betur í öðrum leikhluta og náðu að vinna sig hægt og rólega aftur inní leikinn.  Þegar þrjár og hálf mínúta var liðin af leikhlutanum tók Þröstur Leó sig til og setti þrist af kantinum og minnkaði muninn niður í 6 stig, 34-28.  Sigurður Ingimundarsson var ekki lengi að taka leikhlé sem kveikti all hressilega í mögnuðum stuðningsmönnum Tindastóls.  Keflavík vann það forskot hins vegar fljótt upp aftur og höfðu náð því upp í 11 stig þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður, 40-29.  Tindastóll var að þvinga mjög erfið skot sem reyndist þeim of erfið.  Bárður Eyþórsson tók því leikhlé stuttu seinna í þeirri von að breyta gangi leiksins.  Keflavík hafði þó tröllatak á leiknum og hélt muninum í kringum 10 stig næstu mínútur.  Magnús Gunnarsson setti 5 stig í röð fyrir Keflavík á stuttum tíma sem stuðningsmenn Keflavíkur kunnu sýnilega vel að meta.  Þegar flautað var til hálfleiks höfðu Keflvíkingar 11 stiga forskot, 52-41. 
 
Stigahæstur í liði Keflavíkur í hálfleik var Charles M. Parker með 17 stig og 6 fráköst en næstir voru Magnús Gunnarsson með 11 stig og 6 stoðsendingar og Jarryd Cole með 8 stig og 5 fráköst.  Í liði Tindastóls var Maurice Miller stigahæstur með 11 stig en næstir voru Svavar Atli Birgisson og Friðrik Hreinsson með 8 stig hvor. 
 
Tondastóll tókst aftur að minnka forskot Keflvíkinga í upphafi þriðja leikhluta og höfð náð því niður í 6 stig, 48-54.  Keflvíkingar höfðu þó alltaf svör og höfðu náð muninum aftur upp í 10 stig þegar leikhlutinn var hálfnaður.  Jarryd Cole fékk þá sína fjórðu villu fyrir lélega tilraun til þess að trufla Igor Tratnik.  Cole var því settur á ís en það kom maður í mans stað hjá Keflavík og munurinn var fljótt kominn aftur upp í 13 stig, 67-54.  Það vantaði sárlega fleiri möguleika í sóknarleik Tindastóls sem saknaði framlags frá mönnum eins og Igor Tratnik sem hafði þá aðeins skorað 2 stig.  Það var sama á hvorn veginn það var, ef Keflavík náði forskotinu yfir 10 stig þá svaraði Tindastóll og ef Tindastóll minnkaði muninn undir 10 stig þá svaraði Keflavík.  Rétt áður en flautan gall í lok þriðja leikhluta setti Helgi Freyr Margeirsson niður þrist til þess að minnka muninn niður í 10 stig, 76-66. 
 
Tindastóll átti svo fyrstu fjögur stig fjórða leikhluta og stuðningsmenn liðsins stóðu á fætur og létu vel í sér heyra, 76-70.  Með þessum frábæra stuðningi og hnitmiðuðum þriggja stiga skotum náðu Tindastólsmenn hægt og rólega að minnka muninn niður í 5 stig, 78-83.  Valur Orri Valsson svaraði því svo með flottum þrist og Bárður Eyþórsson tók leikhlé fyrir Tindastól, 86-78.  Charles Parker kom Keflavík aftur í 11 stiga forskot þegar rúmlega fimm mínútur voru eftir af leiknum, 89-78.  Hann tók svo hreinlega yfir leiknum þegar leið á og skoraði 7 af 9 stigum Keflavíkur á stuttum kafla.  Tindastóll tók leikhlé stuttu seinna í stöðunni 93-83 en þá voru þrjár mínútur og 50 sekúndur eftir á klukkunni.  Curtis Allen setti risastóran þrist þegar tvær og hálf mínútua var eftir af leiknum, 95-88, og hélt Tindastól inní leiknum.  Curtis Allen lét ekki þar við sitja heldur stal boltanum í næstu sókn Keflavíkur, brunaði fram og tróð, 95-90.   Tindastóll fékk tvö tækifæri á 30 sekúndna kafla til að minnka muninn enn meira en ekkert gekk, Keflavík hafði því ennþá fimm stiga forskot þegar Tindastóll tók leikhlé og aðeins 19 sekúndur eftir á klukkunni.  Helgi Rafn Viggóson minnkaði muninn niður í 3 stig þegar 11 sekúndur voru eftir.  Keflavík brunaði fram og þar endaði Magnús Gunnarsson á línunni þegar ein sekúnda var eftir, hann nýtti bæði vítin og tryggði þannig Keflavík sigurinn.  Þröstur Leó Jóhannsson átti hins vegar seinasta orðið þegar hann negldi skoti af vítalínu eigin vallarhelmings ofaní en það dugði skammt þar sem Magnús Gunnarss hafði þegar tryggt Keflavík sigurinn, 97-95. 
 
Karfan.is óskar Keflavík innilega til hamingju með bikarmeistaratitilinn 2012!!!