Keflavík semur við Darrel K. Lewis
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur gert samning við Darrel K. Lewis um að leika með liðinu á komandi tímabili. Darrel Lewis er íslenskur ríkisborgari en hann er í kringum 192 cm á hæð og getur spilað bæði skotbakvörð og lítinn framherja.
Flestir körfuknattleiksunnendur ættu að þekkja Darrel Lewis en hann lék þrjú tímabil með Grindavík við góðan orðstír á árunum 2002 – 2005. Síðan þá hefur Darrel Lewis leikið á Ítalíu og í Grikklandi en á síðasta tímabili lék hann með OF Irakleio í grísku 2. deildinni þar sem hann var meði tæp 15 stig, 4,6 fráköst og um tvo stolna bolta að meðaltali í leik. Ljóst er að með komu Darrel Lewis mun koma aukin reynsla inn í hið unga Keflavíkurlið. Slík reynsla ætti að reynast liðinu vel og munu ungu leikmennirnir án efa geta notið góðs af þekkingu og hæfileikum Darrel Lewis.
Talsverð tilhlökkun ríkir í herbúðum Keflvíkinga fyrir komu Darrel Lewis og þá er hann sjálfur spenntur fyrir því að spila á Íslandi á ný; „Ég hlakka til að spila aftur á Íslandi. Ég hef alltaf ætlað mér að koma aftur eftir að hafa notið velgengni þar í nokkur ár. Það mun eflaust verða svolítið öðruvísi að klæðast Keflavíkurbúningnum í ljósi þess að Keflavík var alltaf erfiðasti mótherji minn“.
Hvernig lýst þér á að spila undir stjórn Sigurðar Ingimundarsonar og við hlið Magnúsar Þórs Gunnarssonar, sem var bara ungur og óreyndur þegar þú varst hér síðast?
„Ég hlakka til að vinna með Sigga þjálfara. Hann hefur verið í deildinni í mörg ár þannig að með því að bæta hans þekkingu við leikstíl minn mun verða áhugavert. Maggi Gun var ungur en spennandi leikmaður hjá Keflavík þegar ég var á Íslandi síðast. Nú er hann orðinn eldri og því má ætla að hann sé reynslumeiri sem mun koma okkur báðum til góða“
Hefur þú eitthvað fylgst með íslensku deildinni frá því að þú varst hér síðast?
„Já, ég held nú alltaf sambandi við gömlu liðsfélaga mína og kanna hvernig þeir hafi það eða hvort þeir hafi þroskast eða breyst körfuboltalega síðan ég var síðast á Íslandi“
Hvað mega áhangendur Keflavíkur búast við af Darrel Lewis?
„Þeir geta búist við því að sjá mikla vinnusemi og orku. Ég hef breytt leik mínu mikið síðan ég spilaði með Grindavík. Ég myndi segja að eftir að hafa spilað í mismunandi löndum sé leikstíll minn orðinn mun þróaðri og fjölbreyttari“
Hvað verður það fyrsta sem þú munt gera þegar þú kemur til Íslands?
„Ég mun byrja á því að þakka Guði fyrir að hafa komist öruggur á leiðarenda. Síðan mun ég halda til Reykjavíkur á veitingastað sem selur samlokur, sem ég held að heiti „Nonnabiti“, því ég hef saknað hans“