Keflavík semur við Igor Maric og Karina Konstantinova
Í sumar samdi körfuknattleiksdeild Keflavíkur við sinn hvorn leikmanninn fyrir karla og kvennalið félagsins.
Karlaliðið fékk Igor Maric til liðs við sig en Igor er reynslumikill leikmaður með mikinn leikskilning. Igor, sem er frá Króatíu, hefur spilað í heimalandi sínu, Slóveníu, Slóvakíu, Tékklandi og á Íslandi með ÍR. Eins og sást á síðasta ári þegar hann spilaði með ÍR er hann keppnismaður mikill. Igor skoraði 16 stig, gaf 4 stoðsendingar og var með um 6 fráköst að meðaltali í leik með ÍR en hann hefur getið sér gott orð sem liðsfélagi og er vel liðinn af bæði leikmönnum og þjálfurum. Igor mun koma með aukna skotógn í leik Keflavíkurliðsins en hann var með 40% þriggjastiga nýtingu á sl tímabili. Þá mun hann færa liðinu leikskilning, sigurvilja og reynslu.
Kvennaliðið samdi svo nýverið við Karina Konstantinova frá Búlgaríu. Karina er 173 cm hæð og getur spilað sem ás og tvistur en hún hefur m.a. spilað á Ítalíu og á Spáni. Karina er aggressivur bakvörður sem ætti að henta vel í það sem keflavíkurstúlkur vilja gera. Hún er ung og áræðin auk þess að vera hungruð í að bæta sig og ná árangri. Eru miklar vonir bundnar við þennan gæða leikmann sem er lokapúslið í leikmannahópi kvennaliðsins fyrir veturinn.