Fréttir

Karfa: Karlar | 22. nóvember 2009

Keflavík sigrar Grindavík!

Keflvíkingar sigruðu Grindavík 97-89 í hörkuleik nú fyrir stundu í Toyota Höllinni. Keflvíkingar komu öskrandi grimmir til leiks og tóku sterka vörn á Grindvíkinga. Það sló þá út af laginu með þeim afleiðingum að Keflvíkingar voru fljótir að brúa stigabilið milli liðanna. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-20 fyrir Keflavík. Keflvíkingar héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta og voru duglegir að raða niður þristum inn á milli. Staðan í hálfleik var 52-44 fyrir Keflavík.

Grindvíkingar komu með allt öðru hugarfari til leiks í síðari hálfleik og náðu smám saman að saxa á forskot Keflvíkinga. Staðan eftir þriðja leikhluta var 68-67 fyrir Keflavík. Fjórði leikhluti var æsispennandi og Grindvíkingum tókst að komast yfir þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum. Keflvíkingar börðust hins vegar eins og ljón og náðu forystunni sem þeim tókst að halda til leiksloka. Páll Axel Vilbergsson fékk gullið tækifæri til að jafna leikinn þegar 7 sekúndur voru eftir með opnu þriggja stiga skoti úr horninu, en hann geigaði. Sverrir Þór Sverrisson kórónaði svo sigurinn með flautukörfu frá miðjunni, stórglæsileg karfa. Með sigrinum tókst Keflvíkingum að mjaka sér í fyrsta sætið ásamt Njarðvík, en Njarðvík á leik til góða.

Stigahæstur hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson með 22 stig, en á eftir honum komu Sverrir Þór Sverrisson og Rahshon Clark með 21 stig báðir. Hjá Grindavík var Darrell Flak stigahæstur með 31 stig, en Brenton Birmingham var með 17 stig.