Keflavík skoraði 99 stig en tapaði samt stórt! - Fimmta sætið í hættu ...
Keflvíkingar voru kjöldregnir í Röstinni í kvöld. Okkar menn byrjuðu ágætlega, en um leið og Sigurður þjálfari fór að skipta byrjunarliðinu útaf þá gengu heimamenn á lagið og byggðu upp forystu. Grindjánar voru, að fyrsta leikhluta undarskildum, ávallt fetinu framar, eða tveimur, og innbyrtu að lokum öruggan 17 stiga sigur, 116-99.
Varnir í þessum leik voru engar, svo einfalt er það. Spurningin var bara hvor nýtti færin betur. Og þar höfðu Grindvíkingar vinninginn, 60% nýting í 2ja og 47% nýting í 3ja! Svakaleg hittni, en hún næst yfirleitt ekki nema varnarmenn séu víðs fjarri þegar skotið er. Eins og í kvöld. Páll Axel fór á kostum og ferðin í Röstina var vel þess virði bara til að horfa á þann dreng skora körfur. Vá! Hann setti 40 stig og hitti úr 9 af 10 3ja stiga tilraunum sínum. Frábær frammistaða hjá kappanum.
Okkar menn höfðu greinilega einsett sér að reyna sem minnst að trufla skot andstæðinganna og einnig, þegar munurinn mjókkaði, að senda boltann til þeirra sem oftast til að ergja þá ekki mikið. Keflavík tapaði boltanum 27 sinnum í leiknum sem hlýtur að vera met, oft beint í lúkurnar á bakvörðum Grindvíkinga sem geystust upp völlinn og skoruðu auðveldar körfur, ekki síst Jonathan Griffin sem tróð nokkrum sinnum með tilþrifum. Hreint ótrúlegt hvað hann stekkur sá gutti.
Sebastian var góður í fyrri hálfleik, klaufi í þeim seinni, skoraði 24 stig og tók 9 fráköst. Maggi var ágætur í sókn, setti 22, þar af 5 3ja, en dapur í vörn, Sverrir var ágætur í vörn og sókn, 13 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst, en margar slakar sendingar, alls 7 tapaðir. Gunni setti nokkrar körfur, 15 stig, en gerði lítið þar fyrir utan. Siggi skoraði 10 en var lélegur í vörninni eins og flestir. Jonni sankaði að sér villum.
Sem áhorfandi veltir maður fyrir sér hvort ákveðið hafi verið fyrir leikinn að leika enga vörn? Maður spyr sig. Ef framhaldið verður svona, þá dettur Keflavíkurliðið út í átta liða úrslitum, það er pottþétt. Til að liðið komist lengra verður að eiga sér alger hugarfarsbreyting og það ansi fljótt.
En góður maður sagði eitt sinn á leið í orrystu gegn ofurefli .... "það er ávallt von" ... og það á við nú sem endranær .... :)
ÁFRAM KEFLAVÍK!