Keflavík spilar um 3-4 sæti eftir sigur
Keflvíkingar sigruðu Stjörnumenn í kvöld með 84 stigum gegn 68 í Reykjanes Cup Invitational mótinu. Sá sigur dugði þó ekki til, þar sem Keflavík þurfti að sigra leikinn með 17 stiga mun eða meira til þess að leika í úrslitaleik mótsins. Góður varnarleikur Keflvíkinga skóp þennan sigur, ásamt því að Hörður Axel var duglegur að negla niður þristum utan af velli. Hann skoraði 28 stig samtals í leiknum, þar af fimm þriggja stiga körfur, og var hann atkvæðamestur Keflvíkinga. Eftir honum kom Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 18 stig. Atkvæðamestur Stjörnumanna var Jovan Zdravevski með 18 stig og á eftir honum kom Kjartan Atli Kjartansson með 13 stig.
Fyrri leikur kvöldsins var milli Snæfells og Breiðabliks. Snæfellsmenn höfðu töglin og haldirnar frá upphafi leiks og lauk leiknum með öruggum sigri Snæfells, 95 - 59. Atkvæðamestur hjá Snæfell var Jón Ólafur Jónsson með 22 stig og á eftir honum kom Emil Þór Jóhannsson með 16. Hjá Breiðablik var Rúnar Pálmarsson stigahæstur með 15 stig og á eftir honum kom Arnar Pétursson með 12 stig. Gamli Keflavíkur-jaxlinn Þorsteinn Húnfjörð spilaði með Breiðabliksmönnum og skoraði hann 10 stig í leiknum.
Hvetjum alla á úrslitaleiki morgundagsins, en dagskráin hefst í Toyota Höllinni klukkan 17:15 með leik Breiðabliks og Stjörnunnar. Klukkan 19:00 spilar Keflavík á móti Grindavík og úrslitaleikurinn hjá Njarðvík og Snæfell hefst klukkan 20:45.
Áfram Keflavík!