Keflavík sprakk eftir Evrópusigurinn
Því miður náðu Keflavíkurpiltar ekki að halda dampi gegn Njarðvík í undanúrslitum Powerade-bikarsins eftir frækinn sigur á BK Riga í Evrópukeppninni. Engum blöðum er um það að flétta að Evrópuleikurinn sat í mönnum og ekki var næg orka, hvorki líkamleg né andleg, til að takast á við sterka Njarðvíkinga svona skömmu eftir stærsta leik ársins.
Um leikinn er ekki mikið að segja, hann var eign Njarðvíkinga frá upphafi til enda. Okkar menn voru á hælunum og náðu ekki að leika sinn leik, hvorki í vörn né sókn. Halldór Halldórsson var besti maður liðsins, en stóru byssurnar voru algerlega púðurlausar. Niðurstaðan var auðveldur 30 stiga sigur Njarðvíkinga, en þeir sigruðu síðan KR-inga í úrslitum með góðum seinni hálfleik og unnu keppnina á sannfærandi hátt.
Til hamingju með sigurinn í keppninni, Njarðvíkingar, hann var verðskuldaður og sannfærandi.
Okkar menn höfðu ekki leikið sérlega vel í haust, en liðið gersamlega sprakk út í Evrópuleiknum. Gaman að sjá að þegar allt er undir, getur liðið sýnt þennan styrk. Næst á dagskrá í Euro eru leikir gegn góðkunningjum okkar frá Madeira, 8. og 15. des. Fyrri leikurinn verður í Kef og verður mikilvægt að ná hagstæðum úrslitum, en undanfarin tvö ár hafa leikir þessara liða unnist á heimavelli. Athyglisvert er þó að Madeira er sterkara lið nú en undanfarin ár. Þeir burstuðu t.d. Bakken Bears í tvígang og eru í bullandi toppbaráttu í Portúgal, en hafa verið um miðja deild, jafnvel neðar, s.l. tvö ár. Ljóst er því að Kef verður að ná upp Riga-stemmingu ef vel á að fara.
Varðandi leikinn gegn Riga þá er allt í lagi að minnast á hve mikið afrek sá sigur var í raun og veru. Lettar tilheyra bestu körfuboltaþjóðum Evrópu, og komust í lokaúrslit Evrópukeppni landsliða sem haldin var í Belgrad í haust. Og BK Riga er langefsta liðið í lettnesku deildinni, enn ósigrað eftir níu leiki þegar þetta er ritað. Þannig að Keflavík var að leggja verulega sterkt lið að velli sem gefur okkur byr undir báða vængi fyrir framhaldið. Spurning bara hvort okkar mönnum tekst að viðhalda stemmingunni?
Næst á dagskrá er Iceland Express deildin, útileikur gegn Grindavík nú á fimmtud., síðan heima gegn Þór næsta fimmtud. og svo úti gegn Fjölni sunnud. 4. des. Vonandi fáum við að sjá nokkra góða leiki til að byggja liðið upp fyrir næstu stórátök þann 8. des.
ÁFRAM KEF!