Keflavík tekur á móti Þór Þorlákshöfn í kvöld
Keflvíkingar leika í kvöld gegn Þór Þorlákshöfn í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins. Leikurinn fer fram í TM-Höllinni og hefst hann kl. 19.15. Keflvíkingar unnu fimm af sex leikjum sínum í A-riðli og enduðu á toppi þess riðils á meðan Þór Þorlákshöfn lenti í öðru sæti B-riðils með þrjá sigra og þrjú töp.
Keflvíkingar hafa byrjað undirbúningstímabilið ágætlega. Liðið spilar töluvert breyttan leikstíl og ljóst að það mun taka einhvern tíma að fínpússa bæði sóknar- og varnarleik liðsins. Við því var þó að búast enda nýr þjálfari í brúnni með nýjar áherslur. Darrel Lewis hefur verið nokkuð iðinn við kolann það sem af er í Lengjubikarnum og leiðir liðið í stigaskorun með 18,5 stig að meðaltali í leik. Michael Craion hefur byrjað rólega í stigaskorun miðað við sl. vetur en hann er þó frákastahæstur í liðinu í Lengjubikarnum með 11 fráköst á leik. Þá hefur Valur Orri Valsson leitt liðið í stoðsendingum en hann er með 3.3 slíkar að meðaltali í fyrstu 6 leikjunum.