Fréttir

Karfa: Yngri flokkar | 15. apríl 2011

Keflavík úr leik í Drengjaflokki eftir stórkostlegan skemmtun

Keflavík féll naumlega úr leik í undanúrslitum drengjaflokks í kvöld þegar þeir biðu lægri hlut gegn KRingum í hreint frábærum körfuboltaleik sem bauð upp á alla bestu konfektmola þess kassa sem rammar þennan yndislega leik.  Lokatölur 95-92 fyrir KR í leik sem Keflvíkingar geta gengið stoltir frá, þrátt fyrir tap, enda var skemmtanagildi, spennustig og hraði leiksins eins og best verður á kosið.

KRingar byrjuðu sterkar og höfðu yfirhöndina í upphafi leiks án þess að munurinn væri mikill og virtust hafa góð tök á leiknum við lok 1. leikhluta þar sem þeir leiddu 28-20.  Keflvíkingar lágu þó tilbúnir til árásar hvenær sem tækifæri gafst og í öðrum leikhluta sprungu þeir út og svöruðu með að setja níu stig í + og fara í hálfleik með einu yfir 48-47.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri. KRingar voru ákveðnari í öllum sínum aðgerðum á meðan Keflavík hikstaði og á skömmum tíma voru svart/hvítu sebrarnir komnir með 10-12 stiga forskot og virtust vera komnir með tak á leiknum á nýjan leik. Keflvíkingar voru þó að gera margt vel þar sem þeirra besta frammistaða fólst í að tapa aldrei yfirvegun og eins börðust þeir fyrir hverju frákasti sem hélt þeim ávallt inni í leiknum. Staðan eftir 3. leikhluta var 70-66 fyrir vestrið og í raun frábærum endaspretti Keflvíkinga að þakka að ekki var verri staða uppi við lok leikhlutans.

Í 4. leikhluta virtust vesturbæjarjarpeyjarnir ætla að klára þetta með gríðarlega vel útfærðum hraðaupphlaupum sem enduðu oftar en ekki með eggjalögn í hreiðrið en aldrei gáfust þó okkar menn upp og héldu góðu flæði þrátt fyrir mótlætið. Ragnar Gerald setti tvo rándýra þrista með skömmu millibili þegar nokkuð var liðið á leikhlutann, annan reyndar af 4. stiga gerðinni, og Siggi Viggi fylgdi fljótlega í kjölfarið með sama skammt. Þegar 1. min. og 12 sek. voru eftir af leiknum og staðan 91-90 fyrir KR, tók Ragnar þokkalega opið 3. stiga skot sem rúllaði með ótrúlegum hætti þrjá hringi á innanverðum hringnum en skrúfaðist upp úr fyrir einhverja ótrúlega óheppni. Vestrið hirti frákastið og fóru í sókn sem endaði með ótrúlegri 3. stiga körfu frá Matta Sig., ca.meter fyrir utan lögsögu og staðan 94-90 þegar 57 sek. tifuðu enn á klukkunni. Keflvíkingar náðu ekki að gera sér mat úr næstu sókn og því gekk lokakafli leiksins út á að reyna brot á KRingum í þeirra síðustu sóknaraðgerð. Það reyndist erfitt enda lið Keflvíkingar aðeins með eina liðsvillu á bakinu fyrir þessar síðustu 24 sek. og tíminn fjaraði nánast út á meðan menn reyndu að brjóta KRinga í bónus. Vestrið hélt jafnframt skynsamlega á spilunum og steig í raun ekki feilspor þegar mest á reyndi þrátt fyrir ágang okkar drengja.  Lokatölur 95-92 í leik sem bauð upp á meistaratakta og tóma skemmtun.

Keflavíkurdrengir þurfa ekkert að setja hökuna ofan í bringu þrátt fyrir þessa niðurstöðu enda léku þeir sem fyrr segir vel gegn gríðarlega skemmtilegu KR liði sem lék jafnvel ööörr......lítið betur. Maður leiksins var hiklaust hinn ungi og stórhættulegi bakvörður KR, Matthías Sigurðsson sem skilaði 29 stigum í hús ásamt því að taka 7 fráköst og eiga 8 stoðsendingar sem enduðu sennilega flest allar í lúkunum á Akureyringnum öfluga Stefáni Karel sem kláraði leikinn með 22 stig og 11 fráköst. Einnig ber að geta Odds þáttar Kristjánssonar sem var þeim drúgur á dýrmætum augnablikum með rándýra þrista og 18 stig í uppgjöri.

Hjá Keflvíkingum átti Sævar Eyjólfsson glimrandi takta heilt yfir með 14 stig í fyrri hálfleik og 10 í seinni. Hann tók jafnframt 8 fráköst og kláraði leikinn með fína nýtingu og 28 framlagsstig sem er afbragð. Ragnar Gerald hóf leikinn á bekknum en lék eins og sá sem ætlar sér lengra þegar hann mætti til leiks í seinni hluta 1. leikhluta. Ragnar kom með nýjan ryþma í sóknarleikinn og lék einn sinn besta leik í vetur, náði flottri tvennu með 14 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Hafliði var alltaf hættulegur og sallaði niður samtals sex þristum og skipti þeim bróðurlega á milli hálfleika. Hann sýndi og sannaði í kvöld að án sjálfstrausts verður verður maður aldrei byss, því þrátt fyrir að fyrstu þrjú skotin færu forgörðum í kvöld, þá fóru þau þrjú næstu niður með hvissi & freiðandi neti. Andri Þór byrjaði á bekknum en spilaði lungan úr leiknum þegar hann mætti enda var drengurinn vinnusamur með afbrigðum og reif niður ein 13 fráköst auk þess að setja ein 7 stig sem hefðu átt að vera fleiri með smá heppni. Siggi Viggi og Kristján T áttu glimrandi kafla og settu m.a. 2. raða sultuflotta þrista á mikilvægum köflum með skömmu millibili, hvor um sig. Andri Dan byrjaði sterkur en lenti fljótt í villuvandræðum sem settu hann í kælingu á bekknum óþarflega fljótt en hann kom og gaf blóð með reglulegu millibili og hefði náttúrulega lagt allan KR bekkinn í sjómann ef þeir hefðu verið með einhvern dónaskap. Atli kom lítillega við sögu en aðrir léku að þessu sinni á bekknum og stóðu sig vel í bræðralagi þess hlutar leiksins. Þeir kappar voru, Gísli Steinar, Aron Freyr og Aron Ingi.

Upp með hökuna drengir og Einar Einarsson. Þið skemmtuð okkur vel í kvöld og eruð bara á réttri leið.

ÁFRAM KEFLAVÍK, hvað annað.

Ragnar Gerald Albertsson átti glimrandi leik í kvöld