Keflavík úti að aka í Hveragerði
Keflavíkurstúlkur spiluðu sinn síðasta leik í Iceland Express deild kvenna í kvöld, en ferðinni var heitið í Hveragerði, þar sem þær mættu feykisterku liði Hamars. Keflavík átti harm að hefna frá fyrri leik, en hann endaði með sigri Hamars á lokasekúndum leiksins, eftir að Keflavík hafði verið yfir allan leikinn. Fyrir leikinn í kvöld var Keflavík með 2 tapleiki á bakinu í deildinni en Hamarsstúlkur voru taplausar. Það er óhætt að segja að Keflavíkurstúlkur hafi vægast sagt verið niðurlægðar í kvöld, en lokatölur leiksins voru 95-63 fyrir Hamar.
Keflavík byrjaði leikinn betur og náði mest 2-11 forystu. En þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af 1. leikhluta, þá komst Hamar yfir og Keflavík sá ekki til sólar eftir það. Yfirburðir Hamars voru algjörir í leiknum og leiddu þær í hálfleik 40-27. Seinni hálfleikur var ekki síðri og sigur Hamars var aldrei í hættu. Svo fór að þær lönduðu stórum sigri 95-63 eins og áður sagði.
Jacqueline Adamshick var sú eina í Keflavík sem lagði eitthvað af mörkum í leiknum, en hún skoraði 23 stig og hirti 13 fráköst. Næst henni koma Birna Valgarðsdóttir með 10 stig og 9 fráköst.
Hjá Hamar var Slavica Dimovska með 22 stig og Jaleesa Butler skoraði 21 og hirti 18 fráköst.
Þar með er venjulegri deildarkeppni lokið hjá Keflavík og deildinni skipt upp í A og B riðil á næstunni.
Það er óhætt að segja að í síðustu þremur leikjum hjá Keflavíkurstúlkum hafi mikið vantað upp í leik þeirra. Naumur sigur gegn næstneðsta liði Grindavíkur í bikar og tap gegn þeim í deildinni nokkrum dögum síðar. Jacqueline Adamshick hefur haldið liðinu á floti í síðustu leikjum og lítið sést til annarra leikmanna, þar sem hausinn hefur verið staddur í langtíburtistan. Nú gefst tími til að girða sig í brók og koma af fullum krafti í næstu leiki.
Áfram Keflavík!
Jacqueline Adamshick gerði 23 stig í kvöld og hirti 13 fráköst.