Keflavík vann ÍS með 21 stig, 44-65
Ekki náðu Keflavíkurstúlkur glansleik í gærkvöldi gegn Stúdínum í Kennaraháskólanum, en engu að síður var leikurinn ávallt í öruggum höndum þeirra. Keflavík leiddi í hálfleik með 11 stigum, 23-34, og eftir að munurinn hafði minnkað í 6 stig, tók Keflavík öll völd á vellinum og jókst forystan jafnt og þétt til leiksloka. Þar með vann kvennalið Keflavíkur sinn 12. leik í röð í deildinni og alls 18. leikinn í röð á yfirstandandi leiktíð.
Erla Þorsteinsdóttir átti góðan leik í gær og var grimm í fráköstum báðu megin á velinum, skoraði 16 stig og tók 12 fráköst, en annars voru leikmenn frekar jafnir að getu. Vörnin var ekki jafn aggresív og oft áður, þannig að hraðupphlaupin voru færri en endranær. Stúlkurnar skoruðu því "aðeins" 65 stig sem telst lítið á þeim bænum nú orðið, enda hafa þær að meðaltali skorað tæp 80 stig í leik.
Anna María þjálfari var þó nokkuð sátt eftir leikinn, þó hún hafi ekki beitt sér að krafti í leiknum sjálfum, tók t.a.m. aðeins tvö skot í öllum leiknum. Hún sagði eftir leikinn að liðið myndi nú einbeita sér að fullum krafti að næsta stóra verkefni, en það er bikarleikurinn gegn UMFG í Grindavík um næstu helgi.