Fréttir

Karfa: Karlar | 23. mars 2012

Keflavík vs Stjarnan í 8-liða - Stelpurnar spila á morgun!

Keflvíkingar spiluðu sinn síðasta leik í Iceland Express deild karla í gærkvöldi þegar þær skelltu sér í Dalshús og mættu þar Fjölnismönnum. Bæði lið voru með mikið undir, en Keflvíkingar þurftu að sigra sinn leik og fá hagstæð úrslit í öðrum leikjum til að landa 4. sætinu. Fjölnismenn hins vegar þurftu að sigra og vonast til að Njarðvíkingar myndu tapa sínum leik, sem myndi gera það að verkum að þeir væru komnir í úrslitakeppnina.

Fjölnismenn komu sterkari til leiks í 1. leikhluta og var það mikið til vegna þess að varnarleikurinn hjá Keflavík var ekki að gera sig. Trekk í trekk fengur þær að keyra upp undir körfuna og fá opið skot, sem þeir að sjálfsögðu nýttu sér. Fjölnismenn leiddu 30-23 eftir leikhlutann.

Í öðrum leikhluta fóru Keflvíkingar að saxa á forskotið fyrir tilstuðlan Jarryd Cole, sem átti mjög góðan leik í gær. Hann var duglegur að biðja um boltann undir körfunni og keyra upp í skot. Þó mátti auka framlag frá öðrum leikmönnum Keflavíkur í fyrri hálfleik og áttu þeir þann spaða upp í erminni þegar seinni hálfleikur myndi bresta á. Staðan í hálfleik var 49-45 Fjölnismönnum í vil.

Í seinni hálfleik kom Maggi Gun baneitraður inn og setti þrjá þrista á innan við þremur mínútum og kom Keflvíkingum í bílstjórasætið. Fjölnismenn voru þó ekkert hættir og settu sjálfir fjóra þrista á innan við fjórum mínútum og kveiktu heldur betur upp í leiknum. Fjórði leikhlutinn einkenndist af hnoði og menn orðnir taugatrekktir. Jarryd Cole jafnaði leikinn þegar tæpar 20 sekúndur lifðu leiks og leikurinn fór í framlengingu. Leikurinn var hnífjafn í framlengingunni, en útslagið gerði Maggi Gun þegar að hann hittir úr 3ja stiga skoti og fékk villu að auki, en hann setti niður vítaskotið og tæpar 20 sekúndur eftir. Fjölnismenn minnkuðu muninn niður í eitt stig þegar 3 sekúndur lifðu leiks, en þá fór Valur Orri á vítalínuna eftir að brotið var á honum. Hann setti hvorugt skotið niður og Hjalti Vilhjálmsson átti lokaskotið sem lenti á hringnum, en ofan í vildi boltinn ekki.

Keflvíkingar stóðu því uppi sem sigurvegarar í þessum lokaleik 98-99 og enda í 5. sæti deildarinnar. Þeir mæta Stjörnunni í 8-liða úrslitum og verður það sannarlega viðureign sem erfitt verður að spá í.

Stigaskor gærkvöldsins:

Fjölnir: Arnþór Freyr Guðmundsson 18/5 fráköst/8 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 17/4 fráköst, Calvin O'Neal 16/8 fráköst, Nathan Walkup 16/12 fráköst, Hjalti Vilhjálmsson 12, Jón Sverrisson 8/4 fráköst, Trausti Eiríksson 5, Daði Berg Grétarsson 2, Gunnar Ólafsson 2, Haukur Sverrisson 2, Tómas Daði Bessason 0, Halldór Steingrímsson 0.

 

Keflavík: Jarryd Cole 37/19 fráköst/3 varin skot, Magnús Þór Gunnarsson 28/5 stolnir, Charles Michael Parker 14/5 fráköst/6 stoðsendingar, Gunnar H. Stefánsson 6, Halldór Örn Halldórsson 5/4 fráköst, Almar Stefán Guðbrandsson 4, Valur Orri Valsson 3/8 stoðsendingar, Ragnar Gerald Albertsson 2, Andri Daníelsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0.

 

Í kvöld hefst svo úrslitakeppni kvenna, en þá mætast Njarðvík og Snæfell. Á morgun eigast við Keflavík og Haukar og leikið verður í Toyota Höllinni. Leikurinn hefst kl. 16:30 og er það skylda allra Keflvíkinga að mæta og styðja við bakið á stelpunum!

Áfram Keflavík!