Fréttir

Karfa: Karlar | 21. janúar 2011

Keflavíkurhraðlestin er komin á sporið

Keflvíkingar sóttu góðan útisigur 102-92 í gærkvöldi gegn sterku liði Stjörnunnar í Iceland Express deild karla, en leikið var í Garðabænum. 

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og staðan 12-12 um miðjan fyrsta leikhluta. Allt virtist hrökkva í baklás hjá okkar mönnum í síðari hluta leikhlutans, sóknarleikurinn var ekki að ganga og Stjörnumenn voru að hitta gríðarlega vel utan af velli. Þessi þróun hélt áfram í þriðja leikhluta en Keflvíkingar virtust ekkert vera að fara á taugum þrátt fyrir mótlætið. Í stöðunni 31-17 var nú aðeins farin að síga brúnin á stuðningsmönnum Keflavíkur í stúkunni en þá simplaði Magnús nokkur Gunnarsson sig inn í leikinn og sallaði niður 11 stigum á tveimur og hálfri mínútu og staðan allt í einu orðin 35-31 fyrir heimamenn. Dóri stóri kom af bekknum í kjölfarið og setti fljótlega þrist og Sanders var líka alltaf að læða niður körfum svo lítið bar á. Liðið var einnig komið í 2-3 svæðisvörn á þessum kafla sem var að svínvirka. Staðan í hálfleik 42-41 fyrir Keflavík og brúnin tekin að lyftast á mönnum Keflavíkurmegin í stúkunni.

Keflvíkingar hófu siðari hálfleikinn með áhlaupi. Hörður Axel var mættur í öllu sínu veldi og stjórnaði liðinu af röggsemi. Flæðið í sóknarleiknum var gott og varnarleikurinn sterkur. Fljótlega voru okkar menn komnir með þægilegt forskot sem varð 17 stig þegar mest skildi á milli liðanna. Stjörnumenn gáfust þó aldrei upp og á lokakafla 4. leikhluta slökuðu Keflvíkingar heldur mikið á í vörninni og hleyptu heimamönnum óþarflega nærri á lokamínútum leiksins. Keflavík hélt þó rétt á spilunum í lokin og kláraði með sannfærandi sigri. Þess ber að geta að Stjörnumenn skoruðu fleiri þriggja stiga körfur í leiknum en tveggja stiga eða 15/14 sem er óvenjuleg tölfræði.

Það verður að segjast eins og er að útlitið á liðinu er virkilega gott og breiddin í hópnum er glimrandi. Gaman er að sjá hvað leikurinn er farinn að rúlla á mörgum mönnum og allir sem koma af bekknum eru að setja mark sitt á leikinn.  Vítanýting liðsins var þó arfaslök og aðeins 14 af  27 vítum rötuðu rétta leið eða 52% nýting. Hörður Axel var þó vítatossinn í þetta skiptið en hann hitti aðeins úr einu víti af sex (17%) og klárt mál að hann lætur þetta ekki spyrjast út um sig aftur hann Hörður. Lazar var á skýrslu en kom ekkert við sögu í leiknum og þar eigum við stóra inneign. 

Magnús Gunnarsson átti að öðrum ólöstuðum kvöldið og yljaði mörgum stuðningsmanninum með gamalkunnum þristum af dýrari gerðinni.  "Nú er Max er kominn í rétta búninginn" sagði Siggi Valla í stúkunni enda var Maggi í sambærilegu stuði og þegar hann yfirgaf félagið á sínum tíma.  Hann setti 26 stig (7/12 í þristum) á þeim tæpu 18 mínútum sem hann spilaði í leiknum og hefði örugglega skorað 40 ef hann hefði fengið fleiri mínútur.  Menn voru líka duglegir að kalla hann aftur inn á völlinn í 4. leikhluta en hann fór á bekkinn þegar 9 mínútur voru eftir af leiknum og menn vildu hafa heitasta manninn í húsinu áfram inná.  Maggi kom þó aftur inná þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum og munurinn aðeins fimm stig.  Eftir hálfa var hann búinn að slökkva í þeim bláu með undurfallegum þrist, hvissara, og þar með varð Stjörnuhrap í húsinu.

Thomas Sanders er magnaður leikmaður og tókst að salla niður 32 stigum án þess að menn yrðu varir við helminginn af þessum körfum.  Frábærlega duglegur og klár íþróttamaður þarna á ferðinni með alveg undraverðan stökkkraft af hvítum manni að vera.

Hörður Axel stóð fyrir sínu eins og fyrri daginn, skorði 16 stig, var frákastahæstur í liðinu með 9 kvikindi og átti 7 stoðsendingar. 

Þröstur Leó er að spila vel þessa dagana og berst grimmilega en hann var með 8 stig og 7 fráköst. 

Jonni Nordal var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í langan tíma og virðist vera að komast í flott form ef tekið er mið af síðustu tveimur leikjum. Það tók hann þó aðeins 16 mín. að taka út villuskammtinn að þessu sinni en það er með ólíkindum hvað oft eru flautaðar ódýrar villur á Jonna.  Þetta jaðrar við einelti á köflum.

Siggi Þorsteins og Gunni Einars hafa oft átt betri dag en það er bara í lagi þegar aðrir eru klárir að stíga upp.  KefStef , Dóri og Almar komu allir við sögu í leiknum og áttu fínar rispur.  Þeir tveir fyrrnefndu með sitthvorn gullþristinn.

Næsti leikur verðu fimmtudaginn 27. janúar þegar Hamarsmenn heimsækja Toyota höllina en leikurinn hefst á hefðbundnum tíma kl. 19.15