Keflavíkursigur á lokasprettinum
Keflvíkingar sigruðu Njarðvíkinga í fyrsta leiknum í 4-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar í kvöld, en lokatölur leiksins voru 89-78 fyrir Keflavík.
Bæði lið komu dýrvitlaus til leiks og ljóst var frá upphafi leiks að ekkert annað en sigur komst að hjá báðum liðum. Leikurinn var gríðarlega jafn og mest var forystan 4 stig á köflum, en það telst ekki mikið í körfubolta. Staðan í hálfleik var 44-42 fyrir Keflavík. Í 3. leikhluta tóku Njarðvíkingar völdin og náðu að halda forystu út leikhlutann með öflugri vörn, ásamt mörgum dýrmætum sóknarfráköstum sem skiluðu oft stigum. Keflvíkingar náðu þó aftur forystu í byrjun 4. leikhluta og héldu henni út leikinn. Njarðvíkingar náðu einungis að minnka muninn í 5 stig í öllum leikhlutanum og á lokaspretti fjórðungsins brotnuðu þeir undan álaginu. Hössi toppaði algjörlega leikinn með "alley-oop" körfu eftir sendingu frá Burns á lokasekúndum leiksins.
Hjá Keflavík var Draelon Burns með 26 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson var með 21. Hjá Njarðvík átti Nick Bradford óvenju góðan leik og skoraði hann 27 stig. Jóhann Árni Ólafsson kom honum næstur með 15 stig.
Keflavíkurliðið var í flottu formi í kvöld, en þó þarf að skerpa eilítið á vítaskotunum og þessum einföldu "lay-up" skotum undir körfunni sem virðast mjög oft geiga. 3ja stiga skotnýtingin var arfaslök hjá báðum liðum, en Keflavík var með 8/28 (29%) og Njarðvík 7/29 (24%).
Næsti leikur fer fram á fimmtudaginn í Ljónagryfjunni og eru allir stuðningsmenn hvattir til að mæta og öskra úr sér lungun.
Áfram Keflavík!