Fréttir

Karfa: Karlar | 11. mars 2010

Keflavíkursigur í grannaslagnum

Keflavík var rétt í þessu að leggja Njarðvík að velli í grannaslagnum, en lokatölur leiksins voru 82-69 fyrir Keflavík. Leikurinn verður seint stimplaður sem konfektmoli fyrir augað, en afskaplega lítið var í gangi á mörgum löngum köflum í leiknum. Sem dæmi náðu Njarðvíkingar að skora sín fyrstu stig í 2. leikhluta þegar 3 mínútur voru til loka leikhlutans. Keflvíkingar voru yfir allan leikinn og náðu sannfærandi forystu í 2. leikhluta. Njarðvíkingar voru á köflum í fullri vinnu við að tapa boltum, en þeir voru með 30 tapaða bolta í leiknum. Lítið gekk hjá Njarðvíkingum að koma boltanum ofan í körfuna, en þeir hittu úr einungis fimm 3ja stiga skotum sínum af 20.

Með sigrinum skaust Keflavík í annað sætið og þarf varla að nefna það að þessi sigur var gríðarlega mikilvægur fyrir lokabaráttuna í deildinni.

Hjá Keflavík var Draelon Burns með 20 stig og Gunnar Einarsson skoraði 16. Hjá Njarðvík var Maggi Gunn með 15 stig, en Nick Bradford var með 13 stig.