Fréttir

Karfa: Karlar | 25. mars 2010

Keflavíkursigur í kvöld

Keflvíkingar sigruðu 1. leikinn í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar í kvöld, en leikurinn var gegn Tindastól. Lokatölur leiksins voru 94-75. Keflvíkingar áttu í mesta basli með gestina í kvöld, en það var ekki fyrr en í byrjun 3. leikhluta að Keflvíkingar fóru að síga hægt og rólega fram úr andstæðingunum. Keflvíkingar héldu síðan rúmlega 10 stiga forystu út allan síðasta leikhlutann og lönduðu sigrinum örugglega á lokakaflanum. Hjá Keflavík var Draelon Burns með 21 stig, en Þröstur Leó Jóhannsson var með 19 og Gunnar Einarsson 18. Hjá Tindastól var Cedric Isom með 27 stig og Donatas Visockis var með 14 stig og 14 fráköst.

Næst leikurinn í rimmunni fer fram á Sauðárkróki næstkomandi sunnudag. Ef Keflvíkingar landa sigri í þeim leik, þá eru þeir komnir áfram í 4-liða úrslitin þar sem þeir mæta annað hvort Grindavík eða Snæfell.