Keflavíkursigur með nýjan mann innanborðs
Keflvíkingar spiluðu sinn fyrsta heimaleik á leiktíðinni í kvöld, en Tindastólsmenn voru mættir í heimsókn. Keflavík spilaði með nýjan leikmann innanborðs, en það mun vera Steven Gerard Dagustino, en hann byrjaði leiktímabilið 2008-2009 með Keflavík en varð að yfirgefa liðið sökum bankahruns. Svo fór að Keflvíkingar lönduðu nokkuð öruggum sigri í kvöld, en lokatölur leiksins voru 87-78.
Gerard kom sterkur inn í byrjun leiks og ætlaði að sýna fram á það að hann er enginn aukvissi þegar kemur að körfubolta. Drengurinn sýndi flotta takta og féll vel inn í Keflavíkurliðið, þrátt fyrir að vera nánast nýlentur. Hann og liðið áttu fínan fyrri hálfleik og voru það Keflvíkingar sem leiddu fyrri hálfleik með um 20 stigum.
Hálfleiksræðan í búningsklefa Stólanna hefur greinilega ekki verið hávær, þar sem þeir komu með svipuðum stíl og hafði verið í fyrri hálfleik. Kerfin fengu lítið að rúlla og menn reyndu að gera allt upp á eigin spýtur. Það var ekki fyrr en rétt undir lokin að Tindastólsmenn náðu eitthvað að klóra í bakkann, en það var þó aldrei nóg.
Steven Gerard var stigahæstur í liði Keflavíkur með 17 stig, en næstur honum kom Magnús Þór Gunnarsson með 15.
Gerard kom flott út í fyrsta leik (mynd: karfan.is)