Fréttir

Keflavíkurstelpur á ferð og flugi
Körfubolti | 28. október 2016

Keflavíkurstelpur á ferð og flugi

Það hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum að Keflvísku stelpurnar hafa verið á miklu flugi í Dominosdeild kvenna, en þær skelltu sér á toppinn á miðvikudaginn síðastliðinn með sterkum sigri á Val.

Fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér kvennalið Keflavíkur, þá er undirstaða liðsins uppaldnar stelpur á aldrinum 16 - 19 ára (fæddar á árunum 97 - 00) sem hafa spilað saman upp alla yngri flokka félagsins með glæsilegum árangri. Í sumar voru svo fengnir tveir reynslumeiri leikmenn til liðsins, þær Salbjörg Ragna (25) og Erna Hákonardóttir (23) ásamt því að Svanhvít Ósk (18) gekk aftur í raðir liðsins eftir að hafa hjálpað nágrönnunum í Njarðvík að komast upp úr 1. deildinni á síðasta leiktímabili. Erlendur leikmaður liðsins er svo Dominique Hudson. 

Það sem af er tímabilsins hafa alls 12 leikmenn komið við sögu í leikjum Keflavíkur og þar af er meðalaldur 5 mínútuhæstu leikmannanna 20 ár og meðalaldur hópsins er 18,5 ár. 
Stigahæsti leikmaður Keflavíkur í byrjun tímabilsins er Emelía Ósk Gunnarsdóttir (18 ára) með 18,3 stig að meðaltali í leik, en hún rauf 100 stiga múrinn í síðasta leik liðsins gegn Val. Emelía er einnig framlagshæsti leikmaður liðsins en á eftir henni koma Dominique Hudson, Thelma Dís og Birna Valgerður. 

Góður árangur liðsins hefur vakið mikla athygli en fáir bjuggust við því að Keflavík færi af stað á miklu flugi en eftir sárt tap í fyrsta leik gegn Stjörnunni hafa stelpurnar núna unnið fimm leiki í röð. 

Næsti leikur Keflavíkur verður svo topp slagur gegn Snæfell á miðvikudaginn 2. nóvember en leikið verður í Hólminum. Snæfell var spáð góðu gengi í vetur, enda með mjög öflugan leikmannahóp. Þær töpuðu hinsvegar síðasta leik gegn Grindavík og því má reikna með hörku leik hjá stelpunum.
Við hvetjum auðvitað alla til að fylgja stelpunum vestur og styðja þær til sigurs.