Keflavíkurstelpur áfram, stigaskorið sveik strákana
Hringja þurfti út helstu stærðfræðinga Háskóla Íslands til að reikna út hvaða lið kæmust áfram í fyrirtækjabikarnum karlamegin, þar sem Keflavík, Tindastóll og FSu voru öll jöfn í sínum riðli með 6 stig hvert. Niðurstaða stærðfræðinganna var að lokum sú að Keflavík verður eftir á lakara stigaskori og leika því ekki til úrslita í þessu undirbúningsmóti.
Keflavíkurstelpurnar komust hinsvegar örugglega áfram en þær sigruðu alla sína leiki sannfærandi. Í þessu undirbúningsmóti hafa ungar stelpur fengið tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og ljóst er að þær ætla að gefa þeim eldri lítið eftir. Það verður því spennandi að fylgjast með Keflavíkurstelpunum í vetur en ljóst er að þarna leynast framtíðarstjörnur Keflavíkur.
Stelpurnar eiga leik í undanúrslitum á fimtudaginn næstkomandi en það á enn eftir að koma í ljós við hvern og hvar verður leikið.