Keflavíkurstúlkur áfram á sigurbraut
Keflavík og KR mættust í kvöld í TM-Höllinni í 6. umferð Domino´s deildar kvenna. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og mátt glöggt sjá að kanalausar KR-stúlkur ætluðu sér meira en skottúr til Keflavíkur þetta miðvikudagskvöldið. Drifnar áfram af Sigrúnu Ámundadóttur áttu þær í fullu tré við toppliðið og þegar gengið var til klefa í leikhléi voru það Vestubæjarmeyjarnar sem leiddu með einu stigi, 33-34. Í seinni hálfleik voru Keflavíkurstúlkur fljótar að ná forystu og þó KR-stúlkur væru aldrei langt undan létu heimastúlkur forystuna aldrei af hendi. Lokuð þær loks kvöldinu með nokkuð sannfærandi 18 stiga sigri, 74-56.
Hjá Keflavík voru íslensku stúlkurnar í aðalhlutverki en Sara Rún Hinriksdóttir var með 20 stig og 6 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir var með 14 stig og 11 fráköst og þá átti Bríet Sif Hinriksdóttir fínan leik en hún skilaði 14 stigum. Þrátt fyrir að Porsche-inn hefði aldrei farið upp úr þriðja gír endaði glæsikerran engu að síður leikinn með 10 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. (Birgir Orri Hermannsson)