Fréttir

Karfa: Konur | 9. janúar 2011

Keflavíkurstúlkur áfram í 4-liða bikar

Í kvöld mættust Keflavík og Grindavík í Powerade bikarkeppni kvenna, en leikurinn var spilaður í Toyota Höllinni. Það voru eflaust margir sem bjuggust við auðveldum sigri Keflavíkurstúlkna fyrir leikinn í kvöld gegn Grindavík, en annað kom á daginn. Grindavíkurstúlkur eru um þessar mundir í næstneðsta sæti deildarinnar, en Keflavíkurstúlkur í öðru sæti.

Leikurinn byrjaði fjöruglega og var að sjá frá fyrstu mínútu að gríðarlegur kraftur væri í Grindavíkurstúlkum. Það átti ekkert að vera gefið og á þeim vegg lentu Keflavíkurstúlkur.  Mikið jafnræði var með liðunum, en Keflavík var stigi á undan á flestum köflum fyrri hálfleiks. Grindavík náði þó að setja körfu á lokasekúndum hálfleiksins og komst yfir 31-33. Margir bjuggust eflaust við dýrvitlausum Keflvíkingum í seinni hálfleik, en svo var ekki. Jafnræði hélt áfram að vera með liðunum og var það ekki fyrr en um 5 mínútur voru eftir af 4. leikhluta að Keflavíkurstúlkur spýttu í lófana. Mikil barátta um boltann einkenndi lokamínúturnar og Keflavík hafði þar völdin. Svo fór að góður sigur náðist og lokatölur 78-61.

Leikur Keflavíkurstúlkna var langt í frá að vera fagur í kvöld. Mikið af slökum sendingum, klúður með opin skot undir körfu, galopin vörn á köflum og margt fleira. Þetta er þó eitthvað sem læra þarf af.

Stórstirnið Jacqueline Adamshick fór hamförum í leiknum og skoraði 34 stig ásamt því að hirða 15 fráköst. Pálína skoraði 14 stig og Bryndís 13.

 


Jackie fór hamförum í kvöld og skoraði 34 stig