Fréttir

Karfa: Konur | 17. september 2010

Keflavíkurstúlkur áfram í Lengjubikarnum

Keflavíkurstúlkur unnu sigur á Snæfellsstúlkum í kvöld og tryggðu sér áframhaldi þáttöku í Lengjubikarnum. Lokatölur leiksins voru 74-59 fyrir Keflavík.

Leikurinn var bráðfjörugur og voru stúlkurnar í Snæfell aldrei langt á eftir Keflavíkurliðinu, þrátt fyrir að hafa verið undir allan leikinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 18-12 fyrir Keflavík. Í öðrum leikhluta fór að færast meira fjör í leikinn eftir eilítið af þreifingum beggja liða í fyrsta leikhluta. Keflavíkurstúlkur áttu þó oft á köflum í miklu basli með að koma boltanum ofan í körfuna, en voru seigar í fráköstum þó. Staðan í hálfleik var 35-33 fyrir Keflavík. Í seinni leikhluta hélt leikurinn áfram á svipuðum nótum og í fyrri hálfleik, en Snæfellsliðið sýndi og sannaði að þrátt fyrir að vera byggt upp á ungum stelpum, þá gáfu þær ekki þumlung eftir. Boltinn gekk vel á milli leikmanna og endaði það oft með góðu skoti. Staðan eftir 3ja leikhluta 51-47 fyrir Keflavík. Keflavíkurstúlkur hrukku almennilega í gang í byrjun 4. leikhluta og sigu hægt og bítandi fram úr Snæfellsliðinu. Þar skipti grimmur varnarleikur og mörg sóknarfráköst miklu máli. Á endanum stóðu þær uppi sem sigurvegarar og lokatölur leiks 74-59 eins og áður sagði.

Hjá Keflavík var Birna Valgarðsdóttir atkvæðamest með 20 stig. Bryndís Guðmundsdóttir gerði 19 stig, Jacqueline Adamshick 14 stig og Pálína Guðlaugsdóttir 12 stig.

Hjá Snæfell Inga Muciniece atkvæðamest með 16 stig. Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 12 stig, Björg Guðrún Einarsdóttir var með 10 stig og Jamie Braun 11 stig.