Fréttir

Karfa: Konur | 19. febrúar 2011

Keflavíkurstúlkur bikarmeistarar 2011!

Keflavíkurstúlkur urðu í dag Powerade bikarmeistarar, en þær lögðu KR-stúlkur í Laugardalshöllinni fyrr í dag. Lokatölur
leiksins voru 62-72 fyrir Keflavík. Fyrsti bikarmeistaratitill Keflavíkurstúlkna síðan 2004, en þetta var í 4. skiptið sem
stelpurnar komast í höllina frá því sigurári, en hafa aldrei haft erindi sem erfiði fyrr en í dag.

Birna Valgarðsdóttir var valin kona leiksins í dag, en hún skoraði 14 stig í leiknum og var allt í öllu eins og Duracell kanína
inni á vellinum.

Keflavík byrjaði af mikilli grimmd og náðu þær 2-12 forystu. KR-stúlkur komu tvíefldar eftir leikhlé og allt annar bragur
var á liðinu. Þær náðu að komast aftur inn í leikinn og var nokkuð jafnræði með liðunum þangað til hálfleiksflautan gall.
Staðan í hálfleik var 33-30 fyrir KR. Í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Keflavíkurstúlkna. Vörnin small heldur betur
saman og áttu KR-stúlkur í mesta basli með að koma boltanum ofan í körfuna. Þetta gerði það að verkum að Keflavík
seig hægt og bítandi framúr í leiknum og þegar nokkrar mínútur lifðu leiks, var ljóst hvernig hann myndi enda.
Lokatölur 62-72.

Hjá Keflavík var Jacqueline Adamshick atkvæðamest með 19 stig og 14 fráköst. Birna Valgarðsdóttir skoraði 14 stig
og hirti 4 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 12 stig og tók 10 fráköst.

Glæsilegur árangur hjá Keflavíkurstúlkum og loksins er bikarinn kominn aftur heim.

Til hamingju stelpur!