Keflavíkurstúlkur Deildarmeistarar 2012
Keflavíkurstúlkur áttu færi á að landa Deildarmeistaratitli í gærkvöldi þegar að Snæfellsstúlkur voru mættar í heimsókn í Toyota Höllina. Keflavík hafði misfarist að landa dollunni gegn Haukastúlkum 7 dögum áður og því gullið tækifæri að landa titlinum á eigin heimavelli. Keflvíkingum varð þó ekki að ósk sinni, þar sem leikurinn tapaðist 59-61. Úrslit kvöldsins í kvöld gerðu það þó að verkum að Keflavíkurstúlkur eru Deildarmeistarar 2012 eftir að Njarðvík hafði tapað sínum leik gegn Fjölni.
Leikurinn í gær var hnífjafn og ekki mikið um stigaskor. Liðin skiptust reglulega á að taka forystu í leiknum og gáfu lítið færi á sér. Svo fór að Snæfell hélt í lokasóknina tveimur stigum yfir og mislukkaðist skot þeirra. Hrund tók frákastið og henti beint á Pálínu sem brunaði upp völlinn og tók opið 3ja stiga skot og hefði getað landað sigri, en ofan í vildi boltinn ekki og stóðu Snæfellsstúlkur uppi sem sigurvegarar.
Pálína Gunnlaugsdóttir var langbesti maður Keflavíkur í leiknum og skoraði 29 stig, ásamt því að hirða 10 fráköst. Ljóst er að það þurfi að koma meira framlag frá öðrum í liðinu þegar úrslitakeppnin hefst. Eboni Mangum skoraði 10 stig og Jaleesa Butler 8 og 15 fráköst.
Keflavíkurstúlkur eru því eftir kvöld í kvöld Deildarmeistarar í 11. skipti. Lokaleikur liðsins fer fram á laugardaginn í Vesturbænum gegn KR-stúlkum.
Til hamingju stelpur!