Keflavíkurstúlkur í toppsætið á ný
Keflavíkurstúlkur endurheimtu toppsætið í Iceland Express deild kvenna í kvöld þegar að Haukastúlkur sóttu þær heim. Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslit leiksins ekki fyrr en á lokamínútunum, en lokatölur leiksins voru 73-62 fyrir Keflavík.
Haukastúlkur voru ekki komnar til að selja sig ódýrt í kvöld og hafa þær verið á ágætri siglingu í deildinni í undanförnum leikjum. Hope Elam var sjóðandi heit hjá þeim á upphafsmínútum leiksins og hafði skorað 15 stig eftir einungis tæpar 6 mínútur! Hún fékk óáreitt hvert skotið á fætur öðru og hélt Haukastúlkum algjörlega uppi í byrjun leiks. Jaleesa Butler og Pálína Gunnlaugsdóttir héldu Keflavíkurstúlkum inni í leiknum í öðrum leikhluta og var staðan 33-39 fyrir Haukastúlkum í hálfleik.
Keflavík kom með látum inn í seinni hálfleik og náðu þær 10-2 áhlaupi á fyrstu 5 mínútunum, sem breytti stöðunni í 43-42 fyrir Keflavík. Leikurinn var í raun í járnum þangað til á síðustu fimm mínútunum, en þá tókst Keflavík að setja stöðuna frá 61-60 í 73-62, sem urðu lokatölur leiksins. En þær tölur gáfu þó kannski ekki rétta mynd af gangi leiksins í heild.
Frábær sigur og Keflavík í toppsætið á ný með 20 stig. Á eftir þeim koma Njarðvík með 18 stig eftir jafnmarga leiki.
Jaleesa Butler fór hamförum í kvöld og skoraði 35 stig og hirti hvorki meira né minna en 26 fráköst, en það skilaði henni 51 framlagsstigum. Birna Valgarðsdóttir skoraði 15 stig, Pálína Gunnlaugsdóttir og Helga Rut Hallgrímsdóttir settu 10 hvor.
Butler fór hamförum í kvöld