Keflavíkurstúlkur í úrslit Powerade bikarkeppninnar
Keflavíkurstúlkur tryggðu sér sæti í úrslitum í Powerade bikarkeppninni í gærkvöldi þegar þær lögðu Njarðvík að velli. Lokatölur voru 69-72.
Leikurinn var mjög sveiflukenndur í fyrri hálfleik, en sérstaklega í fyrsta leikhluta var mikil upplausn í leik Keflavíkur, ásamt því að tapa boltanum oft og klúðra opnum skotum undir körfunni. Það sama var uppi á teningnum hjá Njarðvík, en á köflum virtist sem það væri lok á körfunni beggja vegna miðju. Njarðvík átti hins vegar 2. leikhluta og var yfir nær allan fjórðunginn, en þær fóru með forystu í hálfleik 39-30.
Í seinni hálfleik voru Keflavíkurstúlkur fljótar að komast yfir og náðu þær að halda þeirri forystu út leikinn. Það fór þó um marga í lokin þegar að Njarðvík náði að saxa forskotið niður og í lokasókninni áttu þær möguleika á að koma leiknum í framlengingu með 3ja stiga skoti. Shayla Fields gerði heiðarlega tilraun til að jafna leikinn en skot hennar geigaði og Keflavík fór með sigur af hólmi.
Þar með eru Keflavíkurstúlkur komnar í úrslit í Powerade bikarkeppninni annað árið í röð. Það kemur í ljós í dag þegar KR og Hamar mætast kl. 14:00 í Vesturbænum.
Bryndís Guðmundsdóttir átti flottan leik í gær, en hún skoraði 22 stig og hirti 9 fráköst. Birna Valgarðsdóttir og nýja stúlkan í liðinu, Marina Caran, skoruðu báðar 13 stig. Jacqueline skoraði óvenju lítið miðað við alla fyrri leiki, en hún setti 12 stig. Hjá Njarðvík var Shayla Fields atkvæðamest með 22 stig. Dita Liepkalne skoraði 18 stig og hirti 13 fráköst.
Bryndís Guðmundsdóttir átti hörkuleik í gær.