Fréttir

Keflavíkurstúlkur kláruðu Grindavík öðru sinni - Stutt viðtal við Anítu Evu
Karfa: Konur | 15. nóvember 2013

Keflavíkurstúlkur kláruðu Grindavík öðru sinni - Stutt viðtal við Anítu Evu

Keflavíkurstúlkur voru ekki lengi að jafna sig á fyrsta tapi sínu í deildinni á dögunum. Í fyrradag lögðu þær leið sína í Grindavík þar sem þær sigruðu heimastúlkur örugglega, 64-84. Þrír leikmenn settu yfir 20 stig í leiknum en það voru þær Porshce Landry (24 stig og 12 fráköst), Bryndís Guðmundsdóttir (24 stig og 13 fráköst) og Sara Rún Hinriksdóttir (21 stig). Þá áttu þær Thelma Lind Ásgeirsdóttir og Aníta Eva Viðarsdóttir einnig góðan leik en langt er síðan sú síðarnefndar hefur spilað jafn mikið, eða 20 mínútur. Heimasíðan heyrði í Anítu og bar undir hana nokkur atriði.
 
Jæja, það tók ekki langan tíma að jafna sig eftir tapið gegn Haukum? 
Nei þetta tap kom okkur bara niður á jörðina og við urðum auðvitað að halda áfram og mæta tilbúnar í næsta leik.
 
Hvað var það sem skóp þennan örugga sigur? 
Að mínu mati var það vörnin. Við spiluðum líka saman sem lið og gáfum okkur allar í þennan leik.
 
Er ekki extra sætt að vinna svona nágrannarimmur, sér í lagi þar sem Grindavíkurliðið er frekar "keflvískt" í ár? 
Allir sigrar eru sætir en jújú alltaf gaman að vinna þetta lið.
 
Nú hefur þú verið að fá meiri tækifæri en kannski áður, ertu sátt við hlutverk þitt í liðinu og megum við eiga von á meiru frá þér? 
Já, ég er sátt við hlutverk mitt í liðinu og tel mig eiga meira inni. Ég ætla mér að bæta mig með hverri æfingu og leik og nýta tækifærin sem ég fæ þannig þið megið alveg eiga von á meiru frá mér.
 
Hvernig lýst þér á komandi leiki? 
Bara ljómandi vel.
 
Eitthvað að lokum?
Já, ég vil þakka stuðningsmönnunum! Það er mjög gaman að sjá hvað margir eru duglegir að mæta á leikina okkar og hvetja okkur áfram, bara endilega halda því áfram!