Fréttir

Körfubolti | 17. desember 2003

Keflavíkurstúlkur komnar í 8 liða úrslit Bikarsins eftir 16 stiga útisigur á ÍR

Konurnar úr Keflavík héldu í Seljaskólann í kvöld og hittu þar fyrir sprækar ÍR stelpur í fyrstu umferð Bikarkeppni KKÍ & Lýsingar. Leikurinn var jafn framan af og eftir fyrsta leikhluta leiddu heimastúlkur með 3 stigum, 22-19. Í hálfleik hafði Keflavík komist yfir 36-38 og síðan kom ágætur sprettur þar sem Keflavík byggði upp þægilegt forskot sem tryggði öruggan sigur, 59-75.

Erla Þorsteinsdóttir lék aftur með Keflavík eftir veikindahlé og skoraði 12 stig og hirti 11 fráköst. Fjórar aðrar stúlkur skoruðu 10 stig eða meira, Birna 17, Anna María 15, Erlurnar báðar 12 og María Ben 10 stig, en hún tók auk þess 10 fráköst og varði 4 skot. Boltinn gekk ágætlega í seinni hálfleik og sagði Hjörtur þjálfari að góð rispa í seinni hálfleik hefði gert útslagið. 3ja stiga nýting okkar liðs var þó slök í leiknum, aðeins 5 oní í 25 tilraunum.

Með þessum sigri er Keflavík komið í 8 liða úrslit líkt og ÍS, Haukar, KR, Njarðvík, Tindastóll, Breiðablik/Þór Ak og Ármann/Þróttur eða Grindavík.

Á morgun kl. 14 verða dregnir saman mótherjar í 8 liða úrslitin bæði hjá konum og körlum.