Keflavíkurstúlkur leiða einvígið 2-1 eftir sigur í kvöld
Keflavíkurstúlkur tóku forystu í 4-liða úrslitum Iceland Express deild kvenna í kvöld gegn KR. Lokatölur leiksins voru 76-64. Keflavík lék án Jacqueline Adamshick, en hún ristarbrotnaði fyrir skömmu og verður ekki meira með liðinu það sem eftir lifir tímabils. Snör viðbrögð voru höfð og náðist að manna stöðu hennar í liðinu, en það var Lisa Carcic sem kom liðinu til hjálpar. Lisa þessi er 185cm á hæð og var með 18 stig og 13 fráköst að meðaltali í efstu deildinni í Finnlandi.
Í kvöld voru það KR-stúlkur sem komu ákveðnari til leiks og skoruðu fyrstu 8 stigin í leiknum. Þá tók Keflavík öll völd á vellinum og tókst heldur betur að saxa á forskot KR. Þegar leikhlutinn var yfirstaðinn, var staðan orðin 15-12 fyrir Keflavík. Þær áttu einnig 2. leikhluta algjörlega og héldu áfram að bæta í, en þær náðu mest 20 stiga forskoti. Staðan í hálfleik var 38-25. Í seinni hálfleik hélt Keflavík ávallt nokkuð öruggri forystu, en KR náði þá að sýna mikinn karakter með því að minnka muninn í 2 stig þegar rúmar 2 mínútur voru búnar af 4. leikhluta. Lengra komust þær ekki og Keflavík jók forskot sitt jafnt og þétt eftir því sem leið á fjórðunginn. Svo fór að þær lönduðu nokkuð öruggum sigri, 76-64.
Lisa Carcic kom nokkuð sterk miðað við að hún var að spila sinn fyrsta leik og ekki búin að vera lengi á landinu. Hún skoraði 12 stig, hirti 12 fráköst og stal 6 boltum. Ansi fingralangur leikmaður þarna á ferð!
Stigaskor kvöldsins:
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 18/5 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 17/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ingibjörg Jakobsdóttir 14, Lisa Karcic 12/12 fráköst/6 stolnir/4 varin skot, Hrund Jóhannsdóttir 5/4 fráköst, Marina Caran 5/4 fráköst, Marín Rós Karlsdóttir 3/4 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 2/6 fráköst/5 stoðsendingar.
KR: Margrét Kara Sturludóttir 19/6 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 12/9 fráköst, Melissa Ann Jeltema 12/14 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 9/9 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 7, Signý Hermannsdóttir 4/7 fráköst, Helga Einarsdóttir 1.
Keflavík leiðir því í einvíginu 2-1 og geta tryggt sér sæti í úrslitum í næstu viðureign sem fer fram í DHL Höllinni á sunnudaginn næstkomandi kl. 19:15.