Fréttir

Karfa: Konur | 26. september 2010

Keflavíkurstúlkur Lengjubikarmeistarar 2010

Keflavíkurstúlkur tryggðu sér stórsigur í Lengjubikarnum í dag, en þær völtuðu hreinlega yfir andstæðinga sína í KR. Lokatölur leiksins voru 101-70 fyrir Keflavík.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Keflavík, en staðan eftir 3 mínútur var 2-8 fyrir KR. Við tók kafli þar sem Keflavíkurstúlkur settu í annan gír og spiluðu feykivel á vellinum og spiluðu fína vörn, ásamt því að vera með gott flæði á boltanum í sókninni. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 23-17. Seinni leikhluti var með svipuðum stíl og Keflavíkurstúlkur létur KR-stúlkur aldrei eiga auðveldar körfur. Staðan í hálfleik var 42-34 fyrir Keflavík. Seinni hálfleikur einkenndist af yfirburðum Keflavíkurstúlkna á vellinum, þar með er talið fráköst, varnarmennska og sókn. Keflavíkurstúlkur náðu 58 fráköstum á móti 38 hjá KR í leiknum. Í byrjun 4. leikhluta var í raun ljóst í hvað stefndi og Keflavíkurstúlkur gáfu ekkert eftir. Góð vörn og flott spil í sókninni einkenndi leik liðsins. Lokatölur leiksins eins og fyrr segir 101-70, en Lovísa Falsdóttir, dóttir aðstoðarþjálfara Keflavíkurstúlkna, átti þann heiður að setja niður hundraðasta stig Keflavíkur með vítaskoti.

Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir með 26 stig, en Jacquiline Adamshick gerði 22 stig ásamt því að taka 23 fráköst. Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir gerði 21 stig. Hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir með 18 stig og Hildur Sigurðardóttir 13.

Glæsilegur sigur hjá Keflavíkurstúlkum og þetta lofar góðu fyrir komandi tímabil. Það er ljóst að þær verða í toppbaráttunni í vetur og ætla ekkert að gefa eftir í titlabaráttunni.

Áfram Keflavík!