Keflavíkurstúlkur nálgast deildarmeistaratitilinn - Stutt viðtal við Ingunni Emblu Kristínardóttur
Keflavíkurstúlkur styrktu stöðu sína á toppi Domino´s deildarinnar með fræknum útisigri á Snæfell, 66-75, á laugardag. Jessica Jenkins fór mikinn í liði Keflavíkur en hún skoraði 31 stig og tók 11 fráköst. Birna Valgars bætti við 18 stigum og þá var Bryndís Guðmundsdóttir með 13 stig en báðar voru þær með 8 fráköst.
Viku áður höfðu þær farið í gegnum Snæfell á leið sinni í bikarúrslitaleik en Keflavík hefur nú sigrað alla fjóra leiki liðanna frá því þær lutu í lægra grasi í leiknum um meistara meistaranna. Keflavíkurstúlkur hafa nú sex stiga forskot á toppi deildarinnar og má segja að þær séu komnar með aðra höndina á deildarmeistaratitilinn og um leið heimaleikjaréttinn. Allt getur þó gerst enn. Ingunn Embla Kristínardóttir, leikstjórnandi Keflavíurliðsins, var að vonum sátt með sigurinn en hún sagði að leikurinn hefði verið mjög erfiður; "Við mættum með rétt hugarfar og vorum rétt stemmdar fyrir þennan leik".
Áttu þið von á þeim sterkum í þessum leik í ljósi þess að þið slóguð þær útúr bikarnum helgina áður?
Já, þær mæta alltaf og taka vel á móti okkur en þær hafa gert það í allan vetur. Við höfum haft betur hingað til og ætluðum okkur því að spila eins og við spilum best.
Nú hefur þú verið með nokkuð stórt hlutverk í liðinu á þessu tímabili, hvernig hefur þér fundist það?
Það er auðvitað rosalega gaman að fá svona stórt hlutverk í besta liði landsins og hvað þá í meistaraflokki. Mér finnst þetta bara mjög skemmtilegt og krefjandi verkefni að vera leikstjórnandi í þessu liði.
Nú varst þú í Danmörku á síðasta tímabili, áttir þú von á því að fá svona stórt hlutverk þegar þú kæmir aftur?
Nei, ég átti reyndar ekki von á svona stóru hlutverki hjá Keflavík en ég reyni að nýta mín tækifæri til að gera góða hluti og hjálpa liðinu.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Já, ég vil nota tækifærið og hvetja alla til að fylgjast með kvennaliðinu. Við erum á leiðinni í Laugardalshöllina í bikarúrslitaleik laugardaginn 16. febrúar og erum að gera góða hluti í deildinni. Fólk ætti því að vera með augun opin fyrir þessu glæsilega kvenna liði.
Mynd: Karfan.is - Ingunn Embla í leik gegn Val.